Enski boltinn

Ungur Brasilíumaður á leiðinni til Chelsea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nathan í leik með brasilíska 17 ára landsliðinu.
Nathan í leik með brasilíska 17 ára landsliðinu. Vísir/Getty
Nathan, 19 ára brasilískur miðjumaður, staðfesti það á Instagram-síðu sinni að hann sé á leiðinni til ensku meistaranna í Chelsea.

Nathan hefur leikið með Atletico Paranaense en hann var orðaður við bæði Chelsea og Manchester City. Leikmaðurinn vakti fyrst athygli hjá Chelsea þegar hann spilaði á HM 17 ára landsliða fyrir tveimur árum.

Nathan hann kom til London í apríl og fór þá í læknisskoðun hjá Chelsea. Chelsea mun borga 4,5 milljónir punda fyrir leikmanninn samkvæmt fréttum í enskum fjölmiðlum í dag.

Hann hefur verið í herbúðum Atletico Paranaense í sex ár og komst inn í aðalliðið á síðustu leiktíð en hann fær nú tækifæri hjá einu af stóru félögunum í Evrópu í dag.

Nathan er fæddur í mars árið 1996 en hann spilar sem sóknarmiðjumaður. Hann náði ekki að skora í þrettán leikjum með Atletico Paranaense 2014-15.

Nathan á að baki landsleiki fyrir 17 ára og 20 ára landslið Brasilíumanna en hann hefur skorað 5 mörk í 6 leikjum fyrir sautján ára landsliðið.

Nathan verður einn af mörgum Brasilíumönnum í Chelsea-liðinu en þar spila líka Willian, Ramires, Filipe Luis og Oscar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×