Innlent

Ekki mælst eins mikill kuldi í apríl í 25 ár

Stefán Árni Pálsson skrifar
Trausti segir að veðrið undanfarna daga hafi lítil áhrif á veðrið í sumar.
Trausti segir að veðrið undanfarna daga hafi lítil áhrif á veðrið í sumar. vísir/gva/valli
„Það hefur verið óvenjukalt í apríl,“ segir Trausti Jónsson, veðurfræðingur, en mikill kuldi hefur herjað á landsmenn undanfarna daga en sumardagurinn fyrsti var á fimmtudaginn í síðustu viku. Frost getur farið niður í fimm stig á landinu í dag.

„Við eigum samt kaldari daga í þessum mánuði í fortíðinni. Aprílmánuður fór nokkuð vel af stað en er núna að detta vel niður fyrir meðaltalið.“

Trausti segir að leita þurfi 25 ár aftur í tímann til að finna svona mikinn kulda í apríl.

„Svo þarf að fara enn lengra aftur í tímann til að finna meiri kulda á þessum árstíma. En það verður einnig að hafa hugfast að t.d. árið 2013 mældist meiri kuldi og það í byrjun maí. Þá mældist mesta frost sem mælst hefur á landinu í maí. Þetta hittir ekki á sömu dagana núna.“

Hann segir að veðrið undanfarna daga hafi lítil áhrif á veðrið í sumar. Fjallað hefur verið um það í íslenskum miðlum undanfarin misseri að framundan sé 30 ára kuldaskeið.

„Ég hef ekkert séð sem bendir til þess. Árið í fyrra var t.d. næsthlýjasta árið sem mælst hefur yfirleitt. Þetta er þó kaldasta byrjun á ári frá 2002 hér í Reykjavík. Það hefur verið mikil vestanátt í vetur en aftur á móti þessa dagana er norðanátt.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


×