Innlent

Segir sálgreiningar gerðar á stjórnmálamönnum og blaðamönnum

Samúel Karl Ólason skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra. Vísir/Ernir
„Við vitum að fulltrúar kröfuhafanna hafa tekið saman persónulegar upplýsingar um stjórnmálamenn, blaðamenn og aðra sem hafa tjáð sig um þessi mál eða teljast líklegir til að geta haft áhrif á gang mála.“

Þetta sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og formaður Framsóknarflokksins í yfirlitsræðu sinni á 33. flokksþingi framsóknarmanna sem hófst í dag.

Hann sagði að í sumum tilvikum hefðu verið gerðar sálgreiningar á fólki svo hægt væri að sjá hvernig best væri að eiga við það. Þá sagði Sigmundur að reglulega hafi verið skrifaðar „leyniskýrslur“ fyrir kröfuhafana, þar sem upplýsingar eru veittar um gang mála á Íslandi. Í stjórnmálum, opinberri umræðu, fjármálakerfinu og svo framvegis.

„Í einni af fyrstu skýrslunum kom fram að ein helsta ógnin sem steðjaði að vogunarsjóðunum við að ná markmiðum sínum, ein helsta hindrunin í því að þeir gætu farið sínu fram, héti Framsóknarflokkurinn.“

Þar að auki sagði Sigmundur að í einni af nýjustu skýrslunum, þar sem niðurstöður séu raktar á punktaformi, standi: Framsóknarflokkurinn gefur ekki eftir íslenska hagsmuni.

„Það mega þeir eiga þessir karlar, þeir eru með helstu staðreyndir á hreinu,“ sagði Sigmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×