Innlent

Byrjað að afnema gjaldeyrishöftin fyrir þinglok

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra boðaði á flokksþingi Framsóknarmanna að ráðist yrði í að afnema gjaldeyrishöft áður en þingið lýkur störfum í vor en einungis átján dagar eru eftir af yfirstandandi þingi.

Lagður verði á útgönguskattur eða stöðugleikaskattur sem skili hundruðum milljarða í þjóðarbúið. Hann var ómyrkur í máli þegar hann ræddi kröfuhafa bankanna og ráða mátti af orðum hans að þeir hefðu greitt átján milljarða í áróður fyrir hagsmunum sínum, stundað skipulagðar njósnir og sálgreiningar til að verja gríðarlegar eignir sínar hér á landi.

Sigmundur Davíð sagði ennfremur að kröfuhafar hafi framan af stefnt að því að Ísland gengi í Evrópusambandið og fjármagnaði tap bankanna með lánum frá Evrópska seðlabankanum.Fyrri ríkisstjórn hafi unnið eftir þeirri línu.

Ekki hafi verið hægt að stíga næsta skref við losun haftanna nema skýra afstöðuna til umsóknarinnar að Evrópusambandinu. Eftir það hafi kröfuhöfum verið tilkynnt að ekki væri hægt að bíða lengur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×