Innlent

Kallar eftir því að Sigmundur birti sálfræðigreiningar sem hann hefur undir höndum

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Össur Skarphéðinsson segir sálfræðigreingar á stjórnmálamönnum skemmtilega lesningu en sjálfur hefur hann lesið greiningu CIA á sér.
Össur Skarphéðinsson segir sálfræðigreingar á stjórnmálamönnum skemmtilega lesningu en sjálfur hefur hann lesið greiningu CIA á sér. Vísir/GVA/Ernir
Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra, hefur kallað eftir því að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra birti þær sálfræðigreiningar sem hann sagði í ræðu á flokksþingi Framsóknarflokksins að hefðu verið gerðar fyrir kröfuhafa föllnu bankanna á stjórnmálamönnum.

„Varla mun úrskurðarnefnd um upplýsingamál standa gegn svo sakleysislegri beiðni,“ skrifar hann á Facebook og segist strax farinn að hlakka til lestursins. „En geri ráð fyrir að fátt muni koma mér á óvart!“ Össur segir að það hljóti að teljast þarft og tímabært að brjóta þá Sigmund Davíð og Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, til mergjar út frá sálfræðilegu sjónarhorni.

Sjá einnig: Segir sálgreiningar gerðar á stjórnmálamönnum og blaðamönnum

„Sú skýrsla gæti orðið bókmenntaverk ársins, jafnvel best-seller ef kæmist á markað,“ segir þingmaðurinn.

Össur segir einnig að slíkar sálfræðigreinar geti verið mesti skemmtilestur en hann segist hafa lesið sálfræðigreiningu um sjálfan sig frá því að hann var utanríkisráðherra. „Hún var að ýmsu leyti flatterandi, og CIA fannst ég ekki vera líkt því eins kolgeggjaður og almennt fór orð af,“ segir hann.

„Þar voru lýsingar á skaphöfn minni, m.a. sagt að ég væri „mercurial“ sem er sama orðið og vel metinn sendiherra notaði í annarri lýsingu, sem Wikileaks birti lika, um forseta Íslands, Ólaf Ragnar Grímsson,“ segir Össur. „Í skýrslunni um mig kom líka fram að Bandaríkin gætu ekki treyst mér gagnvart Palestínu. Þurfti nú ekki Einstein til að komast að þeirri niðurstöðu.“

Frá því að Sigmundur Davíð sagði í ræðu sinni á flokksþingi Framsóknarflokksins að kröfuhafar föllnu bankanna hefðu tekið saman skýrslur og sálfræðigreiningar á þingmönnum og blaðamönnum hefur fréttastofa ítrekað óskað eftir því að fá þau gögn sem hann vísar til afhent, án árangurs.

Sálfræðiskýrslur Sigmundar - öll gögn til fólksins!Sálgreining á stjórnmálamönnum getur verið mikill skemmtilestur. Ég...

Posted by Össur Skarphéðinsson on Sunday, April 12, 2015Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.