Enski boltinn

Sterling til Manchester City fyrir risaupphæð?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Raheem Sterling.
Raheem Sterling. Vísir/Getty
Vandræðadrengurinn Raheem Sterling hjá Liverpool er orðaður við Manchester City í ensku blöðunum í morgun en enski landsliðsmaðurinn hefur verið mikið í sviðsljósinu í vikunni.

Raheem Sterling er 20 ára gamall og hefur ekki enn gengið frá nýjum samningi við Liverpool. Myndir af honum að nota hláturgas eru síðan enn eitt dæmið um óheppilega hegðun hans utan vallar.

Frammistaða hans innan vallar var líka í sviðsljósinu því hann skoraði fyrra mark Liverpool í 2-0 sigri á Newcastle á mánudagskvöldið. Raheem Sterling er með 7 mörk og 8 stoðsendingar í 30 deildarleikjum á þessu tímabili.

Daily Mirror og Daily Mail slá því bæði upp að Manchester City ætli að bjóða stóra upphæð í leikmanninn í sumar. Daily Mail talar um allt að 50 milljón punda tilboð en sú tala er 30 milljónir punda í grein Daily Mirror.

Það er svo sem ekkert nýtt að ensku slúðurblöðin slái upp svona fréttum um leikmenn sem gustar um hjá sínum félögum og Daily Express hefur þar eftir innanbúðarmanni hjá Liverpool, framkvæmdastjóranum Ian Ayre, að Sterling sé ekki á förum frá Anfield í sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×