Innlent

Nemendum í þremur grunnskólum í Hafnarfirði býðst sálfræðiþjónusta

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Áfallateymi Hafnarfjarðarbæjar voru virkjuð um leið og fyrstu fréttir af slysinu við Reykdalsstíflu bárust í gær.
Áfallateymi Hafnarfjarðarbæjar voru virkjuð um leið og fyrstu fréttir af slysinu við Reykdalsstíflu bárust í gær. Vísir/Ernir

Áfallateymi Hafnarfjarðarbæjar var virkjað um leið og fyrstu fréttir af slysinu við Reykdalsstíflu bárust. Þetta segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Hafnarfjarðarbæjar. Tveir drengir voru hætt komnir eftir að hafa fest sig í fossi sem rennur af stíflunni.



„Það eru þrír grunnskólar í nágrenninu; það er Lækjarskóli og Setbergsskóli og svo er Öldutúnsskóli líka í þessu hverfi,“ segir Steinunn. „Við settum strax í gær af stað hjá okkur áfallateymin í þessum skólum og áfallateymi bæjarins. Allir kennarar voru upplýstir um stöðuna og ef krakkarnir vildu ræða málin þá voru þeir til.“



Drengirnir tveir eru ekki nemendur í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Þær upplýsingar lágu þó ekki fyrir fyrr en síðar um daginn en slysið átti sér stað um hálf þrjú í gærdag.



Öllum nemendum var í gærkvöldi boðin sálfræðiþjónusta. „Við sendum tölvupóst í gær á alla foreldra í þessum þremur skólum þar sem við sendum númer hjá sálfræðingum bæjarins ef að það hefði eitthvað komið upp í gærkvöldi,“ segir hún.



Enginn hafði samband við sálfræðingana en boðið verður áfram upp á þjónustu þeirra í dag. Sérstök áhersla er lögð á nemendur í Lækjarskóla en slysið átti sér stað rétt hjá skólanum.



Starfsmenn Hafnarfjarðarbæjar munu aðstoða lögreglu eftir bestu getu við rannsókn málsins, að sögn Steinunnar. „Fyrst og fremst hugsum við til þessa fólks sem lendir í þessu. Hugur okkar er hjá þessu fólki,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Öðrum haldið sofandi í öndunarvél

Ungur drengur liggur þungt haldinn á Landspítalanum eftir alvarlegt slys í læknum í Hafnarfirði í dag. Þrír voru fluttir á slysadeild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×