Lífið

Margra barna mæður - Fimm börn, þrjár háskólagráður og fyrirtæki

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Það tekur alltaf smá tíma eftir fæðingu hvers barns að finna taktinn en svo raðast þetta einhvern veginn upp,“ segir Rakel Halldórsdóttir sem er viðmælandi í lokaþættinum af Margra barna mæðrum, en þátturinn er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld.

Rakel er gift Arnari Bjarnasyni doktor í tónsmíðum og býr í Reykjavík ásamt honum og börnum þeirra fimm; Grétu, Halldóri Agli, Áslaugu Birnu, Maríu Önnu og Ellen Elísabetu. Hjónin reka tvær verslanir undir nafninu Frú Lauga og hófu nýverið tilraunaræktun í 300 fermetra gróðurhúsi í Laugardal. „Við opnuðum fyrri verslunina eftir hrun,“ segir Rakel en segja má að Frú Lauga sé nokkurs konar bændamarkaður í borginni.

Rakel er með þrjár háskólagráður. BA gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands, gráðu í safnfræðum frá Harvard og meistaragráðu frá sama háskóla með áherslu á sögu lista og arkitektúrs. „Ég var framkvæmdastjóri Safnaráðs í tíu ár, en þegar börnin voru orðin fimm gekk það ekki upp lengur. Mér líður mjög vel í mínu starfi í dag þótt það tengist menntun minni ekki beint.“

Hún segir þau hjónin ekki hafa stefnt að því leynt og ljóst að eignast mörg börn, en að henni hafi alltaf fundist hugmyndin heillandi. „Maður sá náttúrulega Sound of Music og fannst þetta heillandi,“ segir hún og hlær. „Svo er ég sjálf næstelst í fimm barna hópi.“

Meðfylgjandi er brot úr þættinum sem hefst kl. 20.05 í kvöld.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×