Lífið

Margra barna mæður: Sjö börn á sautján árum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
„Ég var alveg hætt að eiga börn þegar ég var búin að eignast þrjú,“ segir Margrét Brynjólfsdóttir sjúkraþjálfari og sjö barna móðir sem er viðmælandi í næsta þætti af Margra barna mæðrum sem er á dagskrá Stöðvar 2 í kvöld.

Margrét skildi við fyrrverandi eiginmann sinn eftir að hafa eignast með honum þrjú börn og þegar hún kynntist núverandi eiginmanni sínum tilkynnti hún honum að hún ætlaði ekki að eignast fleiri börn. Það átti þó heldur betur eftir að breytast því þau eiga saman fjögur börn í dag. Margrét er ein af þeim sem virðist eiga fleiri klukkustundir í sólarhringnum en aðrir því samhliða því að vera í fæðingarorlofi með sjöunda barn sitt leggur hún lokahönd á meistararitgerð í heilbrigðisvísindum sem hún kallar áttunda barnið.

Fjölskyldan stóra er búsett á Patreksfirði en þar hefur ekki verið starfandi ljósmóðir í rúm 10 ár. Margrét hefur því þurft að leggja land undir fót til að fæða börnin og þau hafa komið í heiminn víða um land. Margrét segir að bæði hafi þetta í för með sér aukinn kvíða á meðgöngu og fjárútlát.

Þátturinn hefst kl. 20.05 og er sýndur á Stöð 2. Meðfylgjandi er brot úr honum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×