Enski boltinn

Jóhann Berg: Stefnan er tekin á ensku úrvalsdeildina

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar marki fyrir Charlton.
Jóhann Berg Guðmundsson fagnar marki fyrir Charlton. vísir/getty
Jóhann Berg Guðmundsson, landsliðsmaður í fótbolta, hefur spilað frábærlega fyrir Charlton á sínu fyrsta tímabili í ensku B-deildinni. Hann gekk í raðir liðsins síðasta sumar frá AZ Alkmaar í Hollandi.

Jóhann er búinn að skora tíu mörk í öllum keppnum og mörg hver glæsileg, en síðast skoraði hann um helgina. Þá lagði hann upp mark fyrir Eið Smára Guðjohnsen í landsleik gegn Kasakstan í lok mars.

„Ég er búinn að skora nokkuð falleg mörg. Í gegnum minn feril hafa mörkin ekki verið mörg en frekar falleg. Maður hefur aðeins verið að reyna ná inn potum líka til að skora fleiri mörk,“ sagði Jóhann Berg í viðtali við Akrabogina á X977 í gær.

Hann sér ekki eftir vistaskiptunum til Englands og er ánægður með hvað hann hefur fengið mikið að spila.

„Ég átti von á þessu. Ég talaði við þjálfarann sem var hér fyrr á tímabilinu. Hann vildi ólmur fá mig og þá vissi ég strax að ég væri lykilmaður og myndi spila hvern leik. Ég hef alltaf haft fulla trú á mér,“ sagði Jóhann Berg.

Jóhann Berg sneri aftur í byrjunarlið landsliðsins í síðasta leik.vísir/getty
Landsliðsmaðurinn segir ensku B-deildina vera erfiða en skemmtilega. Draumurinn er þó að spila í efstu deild enska boltans. Hann gæti yfirgefið Charlton í sumar.

„Ég hef verið óhræddur við að segja það, að mitt markmið er að spila í ensku úrvalsdeildinni. Að fara til Charlton var skref þangað. Um leið og þú ert kominn inn á þennan enska markað vita liðin að þú sér tilbúinn í þá deild,“ sagði Jóhann Berg, en mörkin í vetur hafa vakið athygli.

„Ég hef komið vel inn í þetta og mörkin hafa vakið nokkra athygli. Ætli við sjáum ekki til hvað gerist svo í sumar. Í sumar á ég bara eitt ár eftir af samningi hjá Charlton. Það gerist eitthvað í sumar, hvort sem ég fari eitthvað annað eða skrifi undir nýjan samning.“

„Ég hef mikið verið spurður undanfarið að því hvort ég ætli ekki að fara skrifa undir nýjan samning en ég vil bara klára þessa fjóra leiki sem eftir eru á tímabilinu. Eftir það skoða ég alla möguleika og sé hvað er best fyrir mig að gera,“ sagði Jóhann Berg.

Allt viðtalið má heyra hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×