Lífið

Gerðu myndband um #Freethenipple fyrir útlendinga

Bjarki Ármannsson skrifar
Úr myndbandinu.
Úr myndbandinu.
Play Iceland, ný íslensk myndbandasíða á ensku, leit dagsins ljós í dag. Markmiðið með síðunni er að vekja athygli útlendinga á Íslandi með stuttum myndskeiðum úr innlendu þjóðlífi.

„Þetta er svona mósaík af íslensku fólki og smásögum,“ segir Erla Hrund Halldórsdóttir, einn stofnenda síðunnar. „Það eru til sögur allstaðar og áhugavert fólk. Við erum að reyna að finna skemmtilegan vinkil á venjulegt líf fólks.“

Vinsælasta myndband síðunnar hingað til er myndband um #Freethenipple herferðina sem unnið var í samstarfi við Femínistafélag Háskóla Íslands. Erla Hrund segir að nærri fimm þúsund manns hafi horft á það myndband frá því að það var birt á netinu um fimmleytið í dag.

„Það gekk rosa vel,“ segir Erla Hrund um myndbandið, þar sem bæði strákar og stelpur koma fram ber að ofan og tala um ástæður herferðarinnar. „Þetta er hópur krakka úr Femínistafélaginu og femínistafélögum úr framhaldsskólum sem komu að taka þátt.“

Á bak við Play Iceland er fyrirtækið Hugverkamenn, sem hefur staðið að allskonar myndbanda- og heimasíðugerð fyrir önnur fyrirtæki. Erla Hrund segir að til standi að setja áfram inn á síðuna um eitt til tvö myndbönd á viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×