Enski boltinn

Neville hefur áhyggjur af góðri spilamennsku Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool-menn fagna á móti Manchester City í gær.
Liverpool-menn fagna á móti Manchester City í gær. Vísir/Getty
Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi knattspyrnuspekingur ársins, skrifaði pistil í The Telegraph um góða frammistöðu Liverpool í leiknum á móti Manchester City um síðustu helgi.

Neville segist ekki hafa neinar áhyggjur af því að Liverpool myndi taka Meistaradeildarsætið á kostnað Manchester United fyrr en að hann horfði á Liverpool vinna Manchester City sannfærandi á Anfield.  

„Mesta hrósið sem ég get gefið Liverpool-liðinu fyrir þennan leik er að ég yfirgaf Anfield áhyggjufullur maður. Í fyrsta sinn á leiktíðinni hef ég áhyggjur af því að hvort Manchester United hafi betur í baráttunni við Liverpool um Meistaradeildarsætið'," skrifaði Gary Neville í pistli sínum.

„Ég hef spáð því að Manchester United nái Meistaradeildarsætinu í allan vetur og er ekki að fara breyta um skoðun en það er óhætt að segja að í dag stendur United miklu meiri ógn af Liverpool-liðinu en fyrir nokkrum vikum," skrifaði Neville.

Neville hrósaði Philippe Coutinho og Adam Lallana fyrir frammistöðu sína sem og hvernig Liverpool-liðinu gekk að loka á David Silva eftir að hann hafi komist á flug í seinni hluta fyrri hálfleiksins.

„Liverpool lítur út fyrir að vera lið sem getur tryggt sér síðasta Meistaradeildarsætið. Liðið er hætt að fá á sig mörk, er búið að finna leikkerfi sem hentar þeirra leikmönnum og liðið hefur endurheimt ákefðina í leik sinn," skrifaði Neville að lokum.

Það má finna allan pistil hans hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×