Innlent

Sigmundur Davíð komst víst í Morfís-liðið

Jakob Bjarnar skrifar
Í Gettu betur var því haldið fram að Sigmundur hafi ekki komist í ræðulið síns skóla, margir ráku upp stór augu en nú er komið á daginn að þetta stenst að sjálfsögðu ekki.
Í Gettu betur var því haldið fram að Sigmundur hafi ekki komist í ræðulið síns skóla, margir ráku upp stór augu en nú er komið á daginn að þetta stenst að sjálfsögðu ekki.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur séð sig til knúinn að leiðrétta dómara og spyrla í Gettu betur – spurningakeppni framhaldsskóla. Í síðustu viðureign var, í hraðaspurningum, spurt hvort Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi komist í Morfís-lið MR og rétt svar við því átti að vera að svo hafi ekki verið. Þetta er bara alrangt.

Sigmundur Davíð leiðréttir þetta á Facebook-síðu sinni, og þó hann slái á létta strengi er ljóst að forsætisráðherra er ekki ánægður með að misskilningur sem þessi festist í sessi.

„Það er ekki síðra að vera spurning í Gettu betur en að birtast í áramótaskaupinu. Ég er hins vegar feginn því að úrslitin í kvöld réðust ekki af spurningunni um mig enda mætti deila um hvað teldist rétt svar. Því var haldið fram að ég hefði aldrei komist í Morfís-lið MR. Raunin er sú að ég reyndi einu sinni að komast í liðið og vann undankeppnina. Að því búnu ákvað skólinn að draga sig úr Morfís-keppninni það árið. Ég er hins vegar fyrst núna að átta mig á að það gæti verið augljóst samhengi þar á milli,“ skrifar Sigmundur Davíð og með fylgir lítill broskall.



Annars er ljóst að forsætisráðherra fylgist vel með fjölmiðlum því svo í morgun birti hann mynd sem er af íþróttasíðum Morgunblaðsins. Fyrirsögnin er: Vonum að „Sigmundur Davíð sendi góða strauma“ og er þar fjallað um íshokkí. Sigmundur Davíð skrifar við myndina: „En ekki hvað? Áfram Ísland!“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×