Innlent

Fékk ekki að fara með blindrahundinn Bónó á Kringlukrána

Birgir Olgeirsson skrifar
Halldór Sævar ásamt blindrahundinum Bónó á Hamborgarafabrikkunni.
Halldór Sævar ásamt blindrahundinum Bónó á Hamborgarafabrikkunni.
Halldóri Sævari Guðbergssyni var meinað um að fara með blindrahundinn sinn inn á Kringlukrána í gær. Halldór hafði farið í Kringluna ásamt Bryndísi Snæbjörnsdóttur, formanni Þroskahjálpar í Kringluna, þar sem hann hafði gert innkaup í Bónus ásamt leiðsöguhundinum Bónó.

Í framhaldinu var ákveðið að fara á Kringlukrána og hafði Halldór gert sér vonir um að fá sér hamborgara á veitingastaðnum en honum var ekki hleypt inn því hann var með blindrahund með sér.

Bryndís Snæbjörnsdóttir segir í samtali við Vísi að afgreiðslustúlka hefði tekið á móti þeim og sagst ætla að finna gott borð fyrir Bryndís, Halldór og blindrahundinn Bónó til að sitja við.

Boðið að bíða úti á svölum

„Svo gengur stúlkan að barborðinu og það er greinilega einhver rekistefna við borðið en svo kemur ungur piltur og segir okkur að hann geti ekki boðið okkur að koma inn með hundinn en segir að hundurinn geti beðið úti á svölum á meðan. Blindrahundar eru ekki gerðir til að bíða úti á svölum,“ segir Bryndís en Halldór benti starfsmanninum á lög á Íslandi sem segja að blindrahundar eigi að fylgja eiganda sínum.

„Hann fékk þau svör að gæludýr væru ekki leyfð inni á Kringlukránni. Maður fann strax að það var ekki umræðugrundvöllur fyrir þessu og hann ætlaði ekki að hleypa okkur inn með hundinn. Það stefndi í leiðindi ef við hefðum farið að þræta og mann langar ekki að þræta til að komast inn á veitingastað,“ segir Bryndís.

Reglulega sár

Þau hættu því við ferðina á Kringlukrána og ákváðu að fara á Hamborgarafabrikkuna þar sem Bónó var vel tekið og fékk að fylgja eiganda sínum. „Halldór var reglulega sár og leiður yfir þessu og þess vegna ákváðum við að segja frá þessu. Til að laga aðgengi þarf maður að vekja athygli á misréttinu. Bónó er Halldóri jafn mikilvægur og hjólastóll fyrir hreyfihamlaða,“ segir Bryndís.

Sophus Sigþórsson er eigandi Kringlukrárinnar  en hann hafði ekki kannað málið þegar Vísir hafði samband við hann. „Þetta er örugglega bara eitthvað klúður hjá starfsmanni. Þetta hefur ekki verið neitt vandamál hingað til. Ég held að þetta hafi verið einhver misskilningur,“ segir Sophus.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.