Innlent

HS veitur komast hjá því að greiða 400 milljónir í skatta

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir skrifar
HS veitur ætla að greiða eigendum sínum tvo milljarða króna út úr fyrirtækinu og minnka hlutfé fyrirtækisins um leið. Með þessu sparast fjögur hundruð milljónir sem annars færu í skatta.

Skattgreiðslur af upphæðinni hefðu numið fjögur hundruð milljónum. Júlíus Jónsson forstjóri fyrirtækisins segir þetta fullkomlega löglegt og eðlilegt. Sem íbúi í Reykjanesbæ, sé hann feginn að þessi leið hafi orðið fyrir valinu. Bæjarfélagið fái þá milljarð í staðinn fyrir 800 milljónir. Því veiti ekki af peningunum.

Hafnarfjarðarbær á fimmtán prósenta hlut í HS veitum og fær um 300 milljónir króna. Sandgerðisbær á einnig örlítinn hlut í fyrirtækinu, sem nemur broti úr prósenti.

Ríflega þriðjungur HS veitna er hins vegar í einkaeigu. HSV eignarhaldsfélag sem er í eigu athafnamannsins Heiðars Más Guðjónssonar, lífeyrissjóða og fleiri. Heiðar Már hafði forgöngu um einkavæðingu HS veitna í fyrra ásamt Reykjanesbæ. Þá var keyptur hluti af eign Reykjanesbæjar fyrir einn og hálfan milljarð og allur 16 prósenta hlutur Orkuveitu Reykjavíkur fyrir svipaða upphæð; samtals um þrjá milljarða króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×