Innlent

Vilja láta rannsaka hvers vegna staðsetningartækið hætti að virka

Stefán Árni Pálsson skrifar
Það var upp úr klukkan þrjú í nótt sem björgunarmenn á fimm snjóbílum gátu loks lagt upp vegna veðurofsans.
Það var upp úr klukkan þrjú í nótt sem björgunarmenn á fimm snjóbílum gátu loks lagt upp vegna veðurofsans. mynd/landsbjörg
Landsbjörg ætlar að láta rannsaka hvers vegna staðsetningartæki konunnar, sem leitað var að við Mýradalsjökul um helgina, hætti að virka. Konan fannst heil á húfi í Ferðafélagsskála laust fyrir klukkan sex í morgun og er komin til Reykjavíkur.

Það var upp úr klukkan þrjú í nótt sem björgunarmenn á fimm snjóbílum gátu loks lagt upp vegna veðurofsans og var áhersla lögð á að leita í öllum skálum á svæðinu sem leiddi til þess að konan, sem er liðlega þrítug, af erlendum uppruna en búsett hér, fannst í skálanum í Hvanngili, að sögn Sveins Rúnarssonar yfirlögregluþjóns á Hvolsvelli,  sem var í stjórnstöð aðgerðanna í nótt.

„Það fór bara vel um hana, hún leitaði sér bara skjóls þegar veðrið skall á og kom sér fyrir í skála. Það amaði svosem ekkert að henni,“ segir Sveinn Rúnarsson yfirlögregluþjónn.

„Hún þekkir vel til þarna á svæðinu og var vel búin. Hún var með nesti og gat í raun verið þarna í nokkra daga. Hún var með sérstakt staðsetningartæki en síðasta merkið frá henni barst á föstudeginum. Síðan heyrðist ekkert meira frá henni. Hún var aftur á móti í þeirri trú að hún væri að senda frá sér merki.“

Alls tóku 138 björgunarmenn þátt í leitinni á einn eða annan hátt.   




Fleiri fréttir

Sjá meira


×