Innlent

Veginum um Kjalarnes lokað

Birgir Olgeirsson skrifar
Veginum um Kjalarnes hefur verið lokað en klukkan tíu í morgun var þar stormur, 22 metrar á sekúndu, og fóru hviður þar í allt að 31 metra á sekúndu.

Hálka og éljagangur er á Hellisheiði og í Þrengslum en hálka og skafrenningur á Sandskeiði. Snjóþekja og einhver ofankoma víðast á Suður- og Suðvesturlandi. Hvassviðri er með Suðurströndinni eins og undir Eyjafjöllum. Snjóþekja og skafrenningur er á Reykjanesbraut.

Á Vesturlandi er hálka og hálkublettir. Hvassviðri er við Hafnarfjall en Ófært og stórhríð er á Fróðárheiði. Snjóþekja og skafrenningur er á Bröttubrekku en hálkublettir og óveður á Holtavörðuheiði.

Hálka eða snjóþekja er á vegum á Vestfjörðum og sumstaðar éljar og skefur á fjallvegum. Þæfingsfærð og skafrenningur er á Kleifaheiði, Hálfdán og Mikladal.

Á Norðurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja og víða skafrenningur. Snjóþekja og skafrenningur er á Öxnadalsheiði og skafrenningur og éljagangur mjög víða á Norðausturlandi.

Hálka og snjóþekja er á Austurlandi. Snjóþekja er á Fjarðarheiði, Vatnskarði eystra og Oddskarði en hálka á Fagradal. Hálka og hálkublettir eru með suðausturströndinni og mikið hvassviðri eins og í Öræfum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×