Innlent

Með 66 þúsund sólmyrkvagleraugu í bílskúrnum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Gleraugun svona rétt komast fyrir, þau eru í bílskúrnum en þetta rétt sleppur,“ segir Sævar Helgi.
„Gleraugun svona rétt komast fyrir, þau eru í bílskúrnum en þetta rétt sleppur,“ segir Sævar Helgi. vísir/gva
Hálft tonn af sólmyrkvagleraugum komu hingað til lands á þriðjudag. Gleraugun eru 66 þúsund talsins og verða á næstu vikum afhent öllum grunnskólabörnum og -kennurum landsins. Er það gert í tilefni sólmyrkvans 20. mars næstkomandi.

„Rétt komast fyrir“

Gleraugun eru öll geymd á heimili Sævars Helga Bragsonar, formanns Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann stendur fyrir verkefninu en það er meðal annars til þess fallið að vekja áhuga barna á alheiminum. „Gleraugun svona rétt komast fyrir, þau eru í bílskúrnum en þetta rétt sleppur,“ segir hann glaður í bragði.

Fjörutíu grunnskólar fá, auk gleraugnanna, fræðslukassa með ýmsum munum og líkönum og fræðslu um hvernig nýta megi munina í náttúrufræðikennslu. Kassinn kallast á enskri tungu „universe in a box“, eða alheimurinn í kassa, og geymir hann ýmis líkön, -hnattlíkön, líkön fyrir reikistjörnur og lampa sem táknar sólina, auk annarra hluta.

Sjá einnig: Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá 1954

Sólmyrkvagleraugu eru sérstök hlífðargleraugu. Augun eru afar viðkvæm fyrir geislum sólarinnar og því nauðsynleg þeim sem hyggjast berja sólmyrkvann augum.vísir/gva
„Við gátum ekki keypt kassa fyrir alla grunnskóla landsins. Þess vegna var dregið og það verða skólar frá öllum landshlutum sem fá svona kassa. Kennarar þeirra skóla geta svo komið á kennaranámskeið sem við höldum í næsta mánuði,“ segir Sævar.

Hringdi í alla skólastjórnendur landsins

Verkefnið hefur þó ekki gengið áfallalaust fyrir sig. Reglur Reykjavíkurborgar kveða á um að ekki megi gefa börnum gjafir séu á þeim merkingar. Sævar fundaði því með skóla- og frístundasviði og fékk að lokum samþykki fyrir gjöfunum, með því skilyrði að skólastjórnendur allra skóla myndu heimila þær. Hann hringdi því í alla grunnskóla landsins og hefur fengið leyfi frá þeim öllum.

Sævar er dauðþreyttur, enda verkefnið stórt og umfangsmikið. Hann segir vinnuna þó vel þess virði.vísir/gva
Sjá einnig: Vill að öll börn fái að njóta sólmyrkvans

„Þetta er í fræðsluskyni, og er ekki markaðssetning eða neitt slíkt. Þetta er bara til að efla skólastarfið, það eru engin logo á þessu, þannig að það er ekki verið að auglýsa nokkurn skapaðan hlut. Það er bara verið að gefa krökkum og kennurum tækifæri til að verða vitni að sjaldgæfum viðburði,“ segir Sævar.

Þreyttur en spenntur

Verkefnið er stórt og umfangsmikið og kveðst Sævar vera orðinn afar þreyttur. Hann segir vinnuna þó alla þess virði. „Ég er mjög spenntur en líka dauðþreyttur, því það er svo mikil vinna sem fylgir þessu. Núna fer ég bara í að telja gleraugun í hvern skóla og senda þau eða fara með þau í skólana.“

Alls fá 45 þúsund grunnskólabörn sólmyrkvagleraugu. Kostnaðurinn við verkefnið var 4,5 milljónir króna, sem greiddar voru af Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Hóteli Rangá. Þeir sem hafa áhuga á að festa kaup á slíkum gleraugum er bent á vef Stjörnuskoðunarfélagsins eða stjörnufræðivefinn, en þau kosta fimm hundruð krónur stykkið.


Tengdar fréttir

Dimmasti sólmyrkvi á Íslandi frá árinu 1954

Sólmyrkvi, sá mesti hérlendis í sextíu ár, verður þann 20. mars næstkomandi, eftir tæpa þrjá mánuði, - þá rökkvast himinn í nokkrar mínútur þegar venjulega er hábjartur dagur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×