Innlent

Starfsmönnum Strætó aftur kennt á kerfið bak við ferðaþjónustu fatlaðra

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Christian Erikstrup, fulltrúi frá skrifstofu Trapeze í Danmörku, segir ekki hægt að kenna kerfinu um allt sem miður hafi farið.
Christian Erikstrup, fulltrúi frá skrifstofu Trapeze í Danmörku, segir ekki hægt að kenna kerfinu um allt sem miður hafi farið. VÍSIR/VILHELM/ANTON
Fulltrúar frá hugbúnaðarfyrirtækinu sem framleiðir og selur kerfið sem Strætó notar til að halda utan um akstur ferðaþjónustu fatlaðra eru nú staddir á landinu til að fara yfir og kenna starfsmönnum akstursþjónustusviðs Strætó á kerfið.



Ekki hægt að kenna kerfinu um

Mikil vandamál hafa komið upp frá því að það var innleitt eins og fjallað hefur verið um í fjölmiðlum. Christian Erikstrup, fulltrúi frá skrifstofu Trapeze í Danmörku, segir ekki hægt að kenna kerfinu um allt sem miður hafi farið í ferðaþjónustu fatlaðra síðustu mánuði.

Sjá einnig: Röð mistaka hjá ferðaþjónustu fatlaðra



„Kerfið hefur verið í fullri virkni síðan á síðasta ári. Við kláruðum innleiðingarferlið fyrir jól. Það sem hefur hins vegar gerst er að nýjir aðilar sjá um kerfið og fleiri borgarar hafa notað þjónustuna,“ segir Erikstrup. Hann segir að vandinn sé sá sami og hjá öðrum upplýsingakerfum; gögnin sem séu sett inn í það séu ekki nógu góð.



Ekki fyrsta kennslan

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem starfsfólk Strætó fær kennslu frá starfsmönnum Trapeze. „Við höfum aðstoðað Strætó í gegnum innleiðingarferlið og við höfum kennt starfsfólkinu en ef þú gerir margt í einu þá er alltaf smá möguleiki á að það verði gerði mannleg mistök,“ segir Erikstrup.



Meðal þess sem gagnrýnt hefur verið er tímasetning og umfang breytinganna sem gerðar voru á akstursþjónustunni. Kerfið var sjálft innleitt í byrjun nóvembermánaðar en um áramótin bættust svo við fleiri sveitarfélög sem reka ferðaþjónustu fatlaðra í gegnum Strætó en áður var það bara Reykjavíkurborg.



Engum greiðslum frestað

Innleiðing kerfisins kostaði 9,2 milljónir króna samkvæmt svörum frá Strætó. Árlegur leyfiskostnaður er síðan 6,1 milljón króna. Hugbúnaðurinn, sem heitir NOVUS DR og er frá fyrirtækinu Trapeze, var keyptur í mars á síðasta ári. Það er rúmu hálfu ári áður en að hann var innleiddur fyrir akstursþjónustuna.



Erikstrup segir að engum greiðslum hafi verið frestað vegna vandamálanna en hann segir þau stafa af gögnunum sem sett eru inni í kerfið en ekki kerfinu sjálfu. „Kerfið stjórnast af gögnunum, eins og eðlilegt er með upplýsingakerfi,“ segir hann.



Tengdar fréttir

Breyting á akstri bitnar á eldri borgurum

„Þetta bitnar líka á eldri borgurum sem nýta sér þjónustuna, við erum búin að fá mikið af símtölum frá fólki,“ segir Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Félags eldri borgara, um ferðaþjónustu fatlaðra.

Unnið út í eitt í símaveri Strætó

Vinnudagar starfsfólks í símaveri Strætó eru langir eftir að fyrirtækið tók við rekstri Ferðaþjónustu fatlaðra. Sviðsstjóri segir umræðuna hafa verið ósanngjarna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×