Innlent

Meðlimir Kirkju hins almáttuga guðs teknir af lífi

Birgir Olgeirsson skrifar
Getty
Meðlimir kínversks sértrúarflokks voru teknir af lífi í dag eftir að hafa verið dæmdir til dauða fyrir að myrða konu á McDonald´s-skyndibitastað í maí í fyrra.

Mennirnir tveir, Zhang Fan og Zhang Lidong, tilheyrðu sértrúarflokki sem kallast Kirkja hins almáttuga guðs en þrír til viðbótar voru dæmdir til fangelsisvistar vegna aðildar sinnar að morðinu. Börðu þeir konuna til dauða eftir að hún hafði neitað að ganga til liðs við kirkjuna og sögðu þeir hana hafa verið réttdræpa eftir þá neitun.

Þessi sértrúarflokkur var stofnaður árið 1990 í Kína af manni sem nefnist Zhao Weishan. Hann telur eiginkonu sína, Yang Xiangbin, vera Jesú Krist endurholdgaðan Jesú krist en þau flúðu til Bandaríkjanna árið 2000 eftir að trú þeirra var bönnuð í Kína árið 1995.

Eru þau sögð eiga sér milljónir fylgismanna og margir þeirra í Kína en meðlimir segja kirkjuna vera í miðri baráttu góðs og ills, en hið illa mun vera kommúnistaflokkurinn í Kína.

Ríkisfjölmiðillinn í Kína greindi frá því í ágúst í fyrra að lögreglan hefði handtekið tæplega þúsund manns sem grunaðir eru um að tilheyra þessari kirkju. Í fréttinni var því haldið fram að þeir handteknu bæru ábyrgð á fjölda morða.

Tilkynning barst frá meðlimum hópsins í Hong Kong til bandarísku fréttastofunnar CNN í júní síðastliðnum þar sem því var haldið fram að kommúnistaflokkurinn í Kína hafi kirkjuna fyrir rangri sök varðandi morðið á konunni á McDonald´s. Það væri aðferð sem kommúnistaflokkurinn í Kína væri þekktur fyrir að beita gegn þeim sem væru á móti honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×