Innlent

Allt á floti á Ísafirði

Kjartan Hreinn Njálsson og Samúel Karl Ólason skrifa
Mikill vatnselgur er á Ísafirði.
Mikill vatnselgur er á Ísafirði. Vísir/Hafþór
Slökkvilið Ísafjarðar var kallað út í nótt þar sem vatn var byrjað að flæða inn í Fjórðungssjúkrahúsið í bænum. Mikið vatnsveður hefur verið í bænum og hefur flætt víða inn í hús. Starfsmenn slökkviliðsins hafa verið að störfum við sjúkrahúsið frá því í nótt.

„Þetta gerist oft í svona miklum leysingum þá kemur liggur við öll hlíðin hérna niður í einum vatnselg og það sem við köllum Bæjarbrekku er núna eins og stórfljót. Það er svo mikill snjór í fjöllum og í byggð líka. Svo er mikil asahláka og  háflæði og mikið og hátt í, svo að niðurföllin hafa ekki við,“ segir Þorbjörn Sveinsson, slökkviliðsstjóri í samtali við fréttastofu.

Slökkviliðið hefur einnig verið með starfsmenn að störfum víða um bæinn og björgunarsveitarmenn hafa verið fengnir til hjálpar.

„Við reynum að fá sem flestar hendur til þess að til dæmis setja sandpoka og reyna að beina vatni frá húsum og þessháttar.“

Ekki er ljóst um umfang skemmda, en Þorbjörn segir að alltaf séu einhverjar skemmdir þegar vatn flæði inn. Hann segir Ísfirðinga hafa séð það álíka margoft áður og að starfi þeirra sé ekki lokið enn.

„Meðan veðrið er svona þá verðum við ábyggilega fram á kvöldið og jafnvel fram á nóttina,“ segir Þorbjörn.

Fréttaritari 365 Hafþór Gunnarsson, tók meðfylgjandi myndir af vatnselgnum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×