Innlent

Skjálftavirkni mælist undir eldstöðvum Snæfellsness

Kristján Már Unnarsson skrifar
Ný rannsókn þýskra vísindamanna sýnir að bæði Snæfellsjökull og Ljósufjöll eru virkar eldstöðvar. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur hvetur til þess að Snæfellsnes verði vaktað betur, jafnt í þágu almannavarna sem vísinda.

Háahraun skammt frá Dagverðará er talið yngsta hraunið frá Snæfellsjökli og talið runnið úr toppgíg eldfjallsins úr gosi fyrir um 1.700 árum, að sögn Haraldar. Hann segir að í Hnappadal við Haffjarðará sé þó enn yngra hraun, Rauðhálsahraun, tengt Ljósufjallaeldstöðinni, talið úr gosi sem varð eftir landnám eða í kringum árið 900. Haraldur segir að líta verði á eldstöðvar Snæfellsness sem virkar og nú hafi fengist mikilvæg staðfesting.

„Það er skjálftavirkni undir jöklinum og það eru nýjar upplýsingar,” segir Haraldur.

Til þessa hafi skort nákvæmar mælingar á Snæfellsnesi þar sem jarðskjálftanet Veðurstofu nái aðeins stærstu skjálftum þar en ekki þeim minni.

„En þýskir vísindamenn settu niður jarðskjálftamæla á Snæfellsjökli og í Ljósufjöllum fyrir tveimur árum. Og viti menn: Þá kemur það í ljós að það eru smáskjálftar undir báðum þessum eldstöðvum. Þær eru báðar virkar.”

Haraldur segir vísbendingar um að kvikuhreyfingar orsaki þessa smáskjálfta og hvetur til þess að Snæfellsnes verði vaktað betur.

„Ég held að það sé mikil þörf á því, sérstaklega fyrir vísindin og einnig náttúrlega fyrir almannavarnir.”

Þetta eigi ekki einungis við um Snæfellsjökul heldur ekki síður um Ljósufjöll.

„Ljósufjallaeldstöðin er reyndar sú sem hefur verið virk seinna heldur en Snæfellsjökull. Það má segja að hún sé kannski virkari heldur en Snæfellsjökull.”

Í þættinum „Um land allt” á Stöð 2 annaðkvöld verður nánar rætt við Harald um eldvirkni Snæfellsness.
Það verður síðari þáttur af tveimur en þann fyrri, um Stykkishólm og Eldfjallasafnið, má sjá hér.

Haraldur fjallar um eldvirkni Snæfellsness í þættinum „Um land allt" á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld, kl. 19.20.Stöð 2/Arnar Halldórsson.

Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.