Innlent

Sjúkraflug í molum að mati Elliða

Jakob Bjarnar skrifar
Elliði segir sjúkraflugið þannig vaxið að það sé efniviður í kolsvarta brandara. Hann vill úttekt á stöðunni.
Elliði segir sjúkraflugið þannig vaxið að það sé efniviður í kolsvarta brandara. Hann vill úttekt á stöðunni.
Styrmir Sigurðsson, bráðatæknir og sjúkraflutningamaður úti í Eyjum, birti nýverið grein þar sem hann gagnrýnir stöðu sjúkraflugs harðlega. Í grein hans segir meðal annars:

„Fjöldi sjúkrafluga árið 2014 voru 123 flug. Í meðalári eru farin frá 65-85 sjúkraflug tengd Eyjum á ári hverju. Það er ekki á hreinu hvað hvert flug kostar en mig grunar að það sé um 600.000. Miðað við aukninguna vegna þess að ekkert CT-tæki er hér hér þá er kostnaðurinn milli 22.800.000 og 34.800.000.“ Þarna eru því miklir fjármunir undir.

Styrmir tíundar nokkur dæmi og segir viðbragðstímann alltof langan. Þorkell Ásgeir Jóhannsson starfar hjá Mýflugi, er þjálfunarstjóri þar og segir Styrmi fara með rangt mál hvað það varðar og setur fram ítarlegar athugasemdir við málatilbúnað Styrmis.

Elliði Vignisson bæjarstjóri í Eyjum segir þarna komnar fram alvarlegar ávirðingar sem hann telur vert að skoða nánar. „Hér koma fram alvarlegar ávirðingar sem ég tel vert að skoða nánar. Engum dylst að bráðaþjónusta hér í Eyjum og víðar á landsbyggðinni er vart svipur hjá sjón og þeir sem hafa hvað svartasta húmorinn eru farnir að líkja sjúkraþjónustu þar við póststofnun þar sem tekið er á móti sjúklingum og þeir sendir til lækninga í Reykjavík,“ segir Elliði.

Bæjarstjórinn segir ennfremur, í samtali við Vísi að, hann og þau sem gegna því hlutverki að gæta hagsmuna samfélagsins hljóti að taka því alvarlega „þegar fram koma ávirðingar um að ekki eingöngu hafi lífsnauðsynleg þjónusta verið lögð af heldur sé einnig brotalöm á sjúkrafluginu sjálfu. Ég á því frekar von á því að við óskum eftir því að fram fari ítarleg úttekt á sjúkraflugsþjónustunni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×