Innlent

Ingibjörg Sólrún gaf Rauða krossinum afmælisgjafirnar

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Gestir tóku vel í ósk Ingibjargar og söfnuðu um 300 þúsund krónum. Veislan var haldin í ráðhúsi Reykjavíkur.
Gestir tóku vel í ósk Ingibjargar og söfnuðu um 300 þúsund krónum. Veislan var haldin í ráðhúsi Reykjavíkur. vísir/stefán
Afmælisbörn óska í auknum mæli eftir gjöfum í formi framlaga til góðgerðarmála. Þau setja ýmist upp bauka eða kassa í veislum sínum en það gerði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi ráðherra á dögunum.

Ingibjörg Sólrún fagnaði sextíu ára afmæli sínu á gamlársdag. Hún afþakkaði allar gjafir og hvatti veislugesti þess í stað að mæta með reiðufé. Hún kom sér í samband við Rauða krossinn á Íslandi þar sem hún fékk lánaðan stóran söfnunarbók. Gestir tóku vel í ósk hennar og söfnuðu um 300 þúsund krónum.

Sjá einnig:Grétar Rafn gjafmildur á afmæli sínu

Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins.vísir/axel sigurðsson
„Við erum að sjá það meira og meira að fólk sem á allt og þarf engar gjafir biður veislugesti að láta eitthvað af hendi rakna til einhvers hjálpar- og mannúðarstarfs. Það er alveg frábært og miklu betra en að sitja uppi með alls konar fánýtt dót, fólk sem á orðið allt,“ segir Hermann Ottósson, framkvæmdastjóri Rauða krossins.

Sjá einnig:Gunnar Birgisson gjafmildur

Hermann segir samtökin taka vel í allar gjafir, stórar sem smáar. Þeir sem hafi hug á feta sömu leið og Ingibjörg geti haft samband við Rauða krossinn. Viðkomandi geti í kjölfarið sótt bauk eða kassa til Rauða krossins.

„Það er hægt að fara ýmsar leiðir og við hjálpum viðkomandi í öllum praktískum málum. Það er einnig hægt að hvetja gesti til að gefa í gegnum síma eða með því að leggja inn á reikning. Við sníðum lausnirnar að því sem hentar viðkomandi aðila,“ segir hann.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×