Innlent

Segir dómskerfið hafa brugðist sér

Stefán Árni Pálsson skrifar
Ásta fór út með börnin í síðustu viku.
Ásta fór út með börnin í síðustu viku. vísir/vilhelm
„Lögfræðingurinn minn hefur giskað að á að forsjádeilan taki sex mánuði. Ég veit ekki hversu langan dvalartíma ég fæ í Bandaríkjunum,“ segir Ásta Gunnlaugsdóttir í þættinum Eyjan á Stöð 2 en hún fór með börn sín tvö af landi brott á fimmtudaginn.

Ástu var gert að afhenda barnsföður sínum börnin eftir að Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjaness sem hafði úrskurðað að það myndi stefna andlegri heilsu barnanna í hættu að taka þau úr umsjá móður þeirra. Hún fór með börn sín tvö af landi brott á fimmtudaginn.

„Þetta er rosalega mikil óvissa og ég veit ekkert hvað mun gerast.“ Börn Ástu eru bæði með þroskafrávik. Dóttir hennar sem er fjögurra ára er langt á eftir jafnöldrum sínum í málþroska og tveggja ára sonur hennar er einhverfur.

vísir/vilhelm
„Það hefur verið alveg frábært hvað við höfum fengið mikla hjálp hér á landi og Kópavogsbær hefur staðið sig einstaklega vel. Börnin komust strax inn á leikskóla og hafa fengið séraðstoða vegna þroskafrávika.“

Ásta hefur ekki stundað launaða vinnu síðan hún kom til Íslands þar sem hún þjáist af miklum kvíða, auk þess sem mikið umstang fylgir börnunum. Hún er því ekki í stakk búin til að takast á við þann gríðarlega kostnað sem málaferlunum fylgja.

„Ég má ekki vinna fyrir mér út í Bandaríkjunum og hef ekki fundið mér vinnu síðan ég kom hingað til Íslands. Ég á engan pening og hef ekki efni neinu í raun og veru. Þetta ferli getur kostað margar milljónir. Mér finnst eins og dómskerfið hafi brugðist mér, ég kem til Íslands og er að höfða til þess að hægt sé að vernda réttindi mín og barna minna, en síðan er mér bara snúið aftur til baka í alveg ómögulegar aðstæður.“

Ásta segir að hún sé í raun heimilislaus, hún geti ekki verið á Íslandi og má ekki vera í Bandaríkjunum.

Faðir Ástu fór utan með henni og barnabörnum sínum til að verða henni innan handar þar til dómstólar vestanhafs hafa tekið málið fyrir.


Tengdar fréttir

Neydd með börnin úr öryggi á Íslandi í óvissu vestan hafs

Ásta Gunnlaugsdóttir fer til Bandaríkjanna í dag þar sem hún þarf að afhenda börnin sín tvö föður þeirra sem hlaut dóm fyrir stórfellda vörslu barnakláms. Ásta veit ekki hvað tekur við og óttast um öryggi barnanna.

Berst áfram fyrir börnin

"Ég er að reyna að komast frá þessum manni og ég ætla ekkert bara að gefast upp,“ segir Ásta Gunnlaugsdóttir, sem var í gær gert af Hæstarétti að afhenda börn sín tvö föður þeirra í Bandaríkjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×