Innlent

Kostnaðurinn við skaupið 26 milljónir

Birgir Olgeirsson skrifar
Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, voru á meðal leikara í skaupinu 2014.
Edda Björgvinsdóttir og Þórhallur Sigurðsson, betur þekktur sem Laddi, voru á meðal leikara í skaupinu 2014. mynd/ruv
Kostnaðurinn við Áramótaskaupið 2014 var í kringum 26 milljónir króna. Þetta segir Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarpsins, um skaupið en hann segir kostnaðinn í ár hafa verið undir meðallagi.

„Kostnaðurinn er ekki endanlega kominn saman en við miðum við að hann sé í kringum 26 milljónir sem er aðeins undir því sem venjulega er en kostnaðurinn er yfirleitt alltaf á þessu bili,“ segir Skarphéðinn í samtali við Vísi.

Leikstjóri skaupsins árið 2014 var Silja Hauksdóttir en ásamt henni komu einnig að handritsgerð Edda Björgvinsdóttir, Anna Svava Knútsdóttir, Katla Margrét Þorgeirsdóttir, María Reyndal og Gagga Jónsdóttir, sem einnig var framleiðandi skaupsins.

Þátturinn fær ávallt mikið áhorf, sem mælist að jafnaði yfir 75 prósentum, og eru skiptar skoðanir á því á hverju ári líkt og venjulega.

Á meðal þeirra sem hafa tjáð sig um skaupið opinberlega er þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Elín Hirst, sem þótti skaupið ófyndið. „Kostar 20 milljónir plús að gera svona þátt. Rétt þó að bæta við að Silja Hauksdóttir er mikill talent, en það gekk ekki upp í þessu Skaupi,“ skrifaði Elín á Facebook.

Þá sagðist Halldór Halldórsson, oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn, ekki hafa enst allt skaupið og hið sama á við um Guðlaug Þór Þórðarson, þingmann Sjálfstæðisflokksins.

Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, var þó hrifnari af skaupinu. „Dúndur skaup og svaka beitt. Meira svona,“ skrifaði Katrín á Facebook.

Þegar Skarphéðinn Guðmundsson er spurður hvernig honum þótti skaupið takast til í ár segir hann ómögulegt að segja til um það. „Við erum sátt við mjög margt og stolt af skaupinu. Best af öllu er að sjá hversu mikil og sterk viðbrögð það fær. Verst er þegar skaupið kallar ekki á nein viðbrögð og öllum er sama. En þegar pólitík er annars vegar þá er það þannig að sitt sýnist hverjum. Sama gildir um húmor.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×