Innlent

Stærstu flugeldarnir of stórir og hættulegir almenningi

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Herða á reglur um flugelda hér á landi en í innanríkisráðuneytinu er unnið að breytingum sem fela í sér að ekki verður hægt að flytja inn jafn kraftmikla flugelda og áður.

Töluverð umræða hefur verið eftir áramótin um flugelda og slys tengd þeim. Í kvöldfréttum okkar í gær sögðum við frá þriggja ára stúlku sem slasaðist eftir eftir að hafa fengið flugeld í andlitið á gamlárskvöld þegar flugeldaterta féll á hliðina. Móðir stúlkunnar kallaði eftir því að lög og reglur um flugelda verði endurskoðaðar.

Þá sprakk flugeldaterta með miklum látum í miðbæ Reykjavíkur um áramótin. Karlmaður skarst í andliti auk þess sem tjón varð á nærliggjandi húsum og bílum. Flugeldatertan var nokkuð stór eða um 25 kíló. Í helgarblaði Fréttablaðsins er haft eftir Herdísi Storgaard, verkefnastjóra slysavarna hjá Miðstöð um slysavarnir barna, að stærstu flugeldarnir sem seldir séu til almennings hér á landi séu of stórir og hættulegir almenningi. Sú reglugerð sem í gildi sé um flugelda sé úr sér gengin. Þannig eru reglur Evrópusambandsins mun harðari þegar kemur að flugeldum en þær reglur sem gilda hér.

Fréttastofa óskaði eftir svari frá innanríkisráðuneytinu um það hvort til standi að breyta reglum um flugelda á Íslandi. Í svari ráðuneytisins kemur fram að það sé í vinnslu. Til standi að leggja fram breytingar og taka upp reglur Evrópusambandsins um skotelda. Það feli í sér að reglur um skotelda verði hertar á Íslandi og þar með dregið úr krafti þeirra flugelda sem leyfðir verða.


Tengdar fréttir

Slys af völdum flugelda

Þrátt fyrir aukna fræðslu og varúðarráðstafanir sýna tölur frá Landspítala að um hver áramót verða slys í tengslum við flugelda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×