Innlent

Nöfnin horfin af síðunni „Svindlarar á Íslandi“

Birgir Olgeirsson skrifar
Nöfn þeirra einstaklinga sem voru birt á síðunni hafa verið fjarlægð.
Nöfn þeirra einstaklinga sem voru birt á síðunni hafa verið fjarlægð.
Sú síða á samfélagsmiðlinum Facebook sem hefur vakið hvað mesta athygli Íslendinga á nýju ári er síðan Svindlarar á Íslandi. Þar voru birt nöfn og fæðingarár einstaklinga og fullyrt að þeir hefðu haft rangt við í viðskiptum á netinu.

Sjá einnig:Opna síðuna Svindlarar á Íslandi

Nöfnin hafa hins vegar verið fjarlægð af síðunni og segja aðstandendur síðunnar að það sé niðurstaðan í bili en gátu ekki gefið svör við því að svo stöddu hvers vegna það var gert.

Greint var frá því á vef Ríkisútvarpsins í gær að Persónuvernd væri með síðuna til skoðunar en Þórður Sveinsson, forstöðumaður lögfræðisviðs Persónuverndar, segir í samtali við Vísi að Persónuvernd hafi ekki aðhafst vegna síðunnar enn sem komið er. Sagði hann við RÚV í gær að fólkið sem nafngreint var á Facebook-síðunni geti sent kvörtun til Persónuverndar eða kært nafnbirtinguna til lögreglunar.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir í samtali við Vísi enga kæru hafa borist vegna þessarar síðu.

Síðasti póstur frá aðstandendum síðunnar birtist á sunnudag en þar segjast aðstandendur hennar gera sér grein fyrir því að allt verði gert til að loka henni.  Segjast þeir vera komnir með langan lista yfir fólk sem er sagt stunda óheiðarleg viðskipti á netinu og víðar en vilja ekki nafngreina það.

Þeir benda þó fylgjendum síðunnar á að senda sér fyrirspurn og þá sé hægt að láta vita hvort viðkomandi einstaklingur, sem á að stunda viðskipti við, sé vafasamur. 


Tengdar fréttir

Opinbera svindlara á Facebook

Á síðunni segir að tilgangur hennar sé að deila upplýsingum um varasamt fólk í viðskiptum í netheimum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×