Enski boltinn

Sterling á skotskónum í 8-1 sigri

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Raheem Sterling, Aleksandar Kolorov og David Silva sáu um markaskorunina í öruggum 8-1 sigri Manchester City á landsliði Víetnam í æfingarleik í dag.

Manchester City fékk skell síðastliðinn föstudag gegn Real Madrid í International Champions Cup en Manuel Pellegrini stillti upp blöndu af ungum og efnilegum leikmönnum sem og stórstjörnum liðsins í leiknum í dag.

Kolorov skoraði fyrsta mark leiksins en Manchester City gerði út um leikinn í fyrri hálfleik í dag. Bætti Sterling við tveimur mörkum og Silva einu og var staðan 4-0 fyrir Manchester City í hálfleik.

Kolorov og Silva bættu við einu marki hvor í seinni hálfleik áður en helstu stjörnum liðsins var skipt útaf um miðbik hálfleiksins. Það hægði hinsvegar ekki á City liðinu sem bætti við tveimur mörkum áður en flautað var til leiksloka. Voru þar að verki portúgalski miðjumaðurinn Rony Lopes og spænski framherjinn Jose Pozo.

Heimamenn náðu að klóra í bakkann í lok venjulegs leiktíma þegar Quyet fékk sendingu inn fyrir vörn Manchester City og lyfti boltanum yfir Willy Cabarello í marki Manchester City en stuttu síðar flautaði dómari leiksins til leiksloka.

Manchester City leikur seinasta æfingarleik undirbúning tímabilsins áður en enska úrvalsdeildin gegn Stuttgart á laugardaginn en Manchester City mætir West Bromwich Albion mánudaginn 10. ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×