Því miður fyrir fyrirliðann þurfti hann að kveðja með tapi, en Crystal Palace eyðilagði veisluna með 3-1 sigri. Frammistaða Liverpool-liðsins var nær skammarleg í þessum mikilvæga leik fyrir stuðningsmenn liðsins.
„Stuðningsmennirnir kvöddu mig með stæl. Ég er stoltur af árunum 17 en ég er bara þannig leikmaður að ég er svekktur yfir úrslitunum. En stuðningsmennirnir voru frábærir,“ sagði Steven Gerrard við BBC eftir leikinn.
Gerrard tókst aldrei að vinna Englandsmeistaratitilinn sem hann hefur sjálfur sagt að sé hans mesta eftirsjá. Hann vann þó allt annað; enska bikarinn, deildabikarinn, UEFA-bikarinn, Meistaradeildina og Stórbikar Evrópu. Gerrard hefur átta sinnum verið kjörinn í lið ársins í ensku úrvalsdeildinni, sem er met, og hann kveður, að margra mati, sem besti leikmaðurinn í sögu þess merka félags Liverpool.
Spurður hvert væri besta liðið sem hann hefði spilað með vísaði hann óbeint til Liverpool-liðsins 2008-2009 sem endaði í öðru sæti á eftir Manchester United.

En hvað er næst hjá Liverpool? Í ræðu sinni eftir leik sagði Gerrard að félagið væri í góðum höndum með efnilega leikmenn og frábæran knattspyrnustjóra. Enn fremur sagði hann í viðtali við BBC að hann vildi ekki snúa aftur á láni því það myndi þýða að liðið væri í vandræðum.
Spurningin er: Hver þorir í áttuna? Hver verður leiðtogi Liverpool næstu árin? Flestir horfa til Jordans Henderson sem hefur vaxið mikið og verið varafyrirliði. Það er ekkert grín fyrir lið að missa svona leiðtoga sem hefur jafnframt verið besti leikmaður liðsins í mörg ár. Sá sem þorir í áttuna er hugrakkur maður.