Innlent

Hundrað herbergja hótel á stærri skíðaskálalóð

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Við Skíðaskálann í Hveradölum er talsverður jarðhiti.
Við Skíðaskálann í Hveradölum er talsverður jarðhiti. FRÉTTABLAÐIÐ/pJETUR
Stækka á lóðina við Skíðaskálann í Hveradölum upp í 46 hektara vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar á svæðinu.

„Nánast öll uppbyggingin er á þegar röskuðu svæði sem hefur verið útivistarsvæði í áratugi,“ segir í fundargerð skipulagsnefndar Ölfuss. „Reiknað er með að byggja um 100 herbergja hótel en Skíðaskálinn verður áfram sjálfstæður veitingastaður í endurbættri mynd. Byggja á um tíu þúsund fermetra lón í botni Stóradals.“

Þá kemur fram að lónið og byggingar sem því fylgja eigi að vera nánast huldar frá þjóðveginum af lágreistum húsum sem falli vel að umhverfinu. „Svæðið á að vera áfram fyrir göngu- og hjólahópa. Þarna verður lítil verslun og önnur þjónusta við útivistarfólk. Skíðaskálinn er hugsaður sem bækistöð fyrir náttúruunnendur og aðra sem vilja hreyfa sig og njóta útiverunnar. Setja á upp skíðalyftu á sama svæði og gamla lyftan var í Hveradölum,“ segir áfram.

Engar athugasemdir bárust við aðalskipulagsbreytinguna áður en frestur til athugasemda rann út 15. desember.

Skipulagsbreytingin verður því unnin og send Skipulagsstofnun sem segir um hvort vinna skuli umhverfismat vegna breytingarinnar og auglýsa hana samhliða auglýsingu á aðalskipulagsbreytingunni. Tekið er fram að við hönnun og framkvæmd þurfi að gæta þess að grunnvatn mengist ekki.

Skíðaskálinn stendur í landi Orkuveitu Reykjavíkur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×