Innlent

Mál gegn Annþóri og Berki aftur komið á hreyfingu

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Yfirmatsmenn hafa verið dómkvaddir í málinu.
Yfirmatsmenn hafa verið dómkvaddir í málinu. Vísir

Héraðsdómur Suðurlands dómkvaddi í dag tvo erlenda réttarmeinafræðinga sem yfirmatsmenn í máli ríkissaksóknara gegn Annþóri Kristjáni Karlssyni og Berki Birgissyni sem ákærðir eru fyrir að hafa orðið samfanga sínum að bana. Matsmennirnir eru frá Noregi og Svíþjóð og eiga samkvæmt lögum að hraða vinnu sinni eftir því sem hægt er.



Óljóst er hversu lengi það tekur að fá niðurstöðu matsmannanna svo að hægt sé að hefja aðalmeðferð í málinu. Lögmaður Barkar er þó bjartsýnn á að það ekki langan tíma. „Innan tveggja mánaða er kannski raunhæft,“ segir Hólmgeir Elías Flosason, lögmaður Annþórs, aðspurður hvað hann telji að það muni taka langan tíma.



Málið hefur tekið ansi langan tíma en rúmt ár er frá því að leit að yfirmatsmönnum hófst. Hólmgeir á von á að hægt sé að taka málið til meðferðar á næstu mánuðum og leiða það til lykta.



Annþór og Börkur eru ákærðir fyrir stórfellda og hættulega líkamsárás sem leiddi til dauða samfanga þeirra á Litla-Hrauni í maí á síðasta ári. Þeim er gefið að sök að hafa veist að Sigurði Hólm Sigurðssyni með ofbeldi þann 17. maí á síðasta ári og eiga áverkarnir að hafa leitt til andláts hans.



Rannsókn málsins tók langan tíma en meðal annars var nákvæm eftirlíking klefans sem árásin er sögð hafa átt sér stað í byggð í fullri stærð í húsnæði Lögregluskóla ríkisins þar sem tæknideild lögreglu á höfuðborgarsvæðisins sviðsetti mögulega atburðarás auk þess sem grunuðum var gefinn kostur á að lýsa atvikum í klefanum þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×