Innlent

"Þetta var bráðfyndin og ótrúleg tilviljun“

Atli Ísleifsson skrifar
Anna Sigrún segist ekki hafa verið í beinu sambandi við breska manninn enda sé kona hans sú virka í stuðningshópnum.
Anna Sigrún segist ekki hafa verið í beinu sambandi við breska manninn enda sé kona hans sú virka í stuðningshópnum. Vísir/GVA
„Það var náttúrulega ekkert gaman að fá þetta en þetta er mögnuð tilviljun,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, starfsmaður á skrifstofu forstjóra Landspítalans. Anna Sigrún fékk heilablæðingu þann 5. apríl síðastliðinn og komst nýverið að því að maður í Bretlandi, sem fæddur er sama dag og ár og hún, hafi einnig fengið sömu gerð af heilablæðingu, sama dag og hún.

„Það eru náttúrulega ekki allir sem fá heilablæðingu, og ekki þessa tegund, þannig að þetta er ótrúleg tilviljun. Sjálf fékk ég heilablæðingu þegar ég var stödd í Orlando ásamt fjölskyldunni. Við vorum í Harry Potter-tæki í Universal Studios-skemmtigarðinum þegar þetta kom upp. Það var auðvitað mikið drama, en það gengur mjög vel,“ segir Anna Sigrún.

Anna Sigrún segist vera í sérstökum stuðningshópi á netinu fyrir fólk sem hefur fengið slíkar heilablæðingar. „Svo átti ég afmæli, og einhver mundi eftir því og óskaði mér til hamingju með það. Þá kemur í ljós að þessi maður átti líka afmæli sama dag, fæddist sama ár, og fékk þessa gerð af heilablæðingu, sama dag og ég. Það er dálítið mögnuð tilviljun.

Svo tók maðurinn minn sig til í gærkvöldi og reiknaði líkurnar á þessu. Og þær eru líka svona stjarnfræðilegar, 1 á móti 70 milljónum eða 0,0000014%. Mér fannst þetta mjög fyndið.“

Anna Sigrún segist ekki hafa verið í beinu sambandi við þennan breska mann, enda sé það kona hans sem sé virk í stuðningshópnum. „Ef ég skil hana rétt þá hefur hann orðið fyrir talsvert meira hnjaski en ég. Það hefur samt gengið allt í lagi. Hann er bóndi og starfar sem slíkur.“

Anna Sigrún segir að sér hafi sjálfri gengið mjög vel, þó að frekar langan tíma taki að jafna sig eftir svona. „En þetta var ótrúleg tilviljun og bráðfyndið. Ég hefði þó frekar viljað vinna í lottóinu, enda meiri líkur á því en að þetta eigi sér stað.“

Fréttablaðið tók viðtal við Önnu Sigrúnu í maí síðastliðinn þar sem rætt var við Önnu Sigrúnu um daginn þegar hún fékk heilablæðinguna.


Tengdar fréttir

Fékk heilablæðingu en með hugann við vinnuna

Anna Sigrún Baldursdóttir fékk heilablæðingu í fjölskyldufríi í Bandaríkjunum í síðasta mánuði. Hún var við dauðans dyr en notaði þó tímann óspart til að bera sjúkrahúsleguna í Bandaríkjunum saman við aðstöðuna hér heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×