Innlent

Lögbrot á Bíladögum aldrei verið fleiri

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Akureyri, séð úr austri.
Akureyri, séð úr austri.
Lögreglan á Akureyri finnur fyrir töluverðri fjölgun í umferðalagabrotum milli ára í tengslum við hina svokölluðu Bíladaga sem standa yfir þessa dagana í bænum.

Vísir greindi frá því fyrr í dag að töluverður erill hafi verið hjá embættinu það sem af er hátíðinni en Akureyringar hafa verið duglegir við að kvarta undan ónæði sem hlýst af þrálátu spóli ökumanna í bænum.

Nú er svo komið að lögreglan nær varla að halda utan um öll þau tilvik sem berast inn á borð til þeirra, slíkur er fjöldi þeirra.

Lögreglan nyrðra telur að sektir vegna hraðaksturs séu komnar vel á annan tuginn, þrátt fyrir að nákvæmar tölur liggi ekki fyrir og er það áður óheyrður fjöldi á þessum tíma hátíðahaldanna.

Bíladagar voru settir í gær með pompi og prakt og standa þeir yfir fram á þriðjudag.

Í samtali við blaðamann Vísis segist lögreglan telja að málafjöldinn sé líklega tilkominn vegna fjölgunar hátíðargesta en Bíladagar hafa sjaldan verið fjölmennari en einmitt í ár. „Svo gæti þetta líka bara verið komið í tísku, að keyra um á svona vel málaðri áldollu sem er ekkert nema hljóðið,“ spyr lögreglumaðurinn sig sem Vísir spjallaði við í kvöld.

Lögreglan á Akureyri er með „miklu meiri aðbúnað“ vegna hátíðarinnar og fagnar hún því að að ölvun hafi þó verið með minnsta móti og engir pústrar milli manna það sem af er hátíðinni.

Maðurinn sem slasaðist fyrr í dag í vélhjólaslysi við Glerárgötu er heill heilsu og útskrifaður af sjúkrahúsi. Lögreglan vill brýna fyrir öllum ökumönnum bifhjóla að klæðast ætíð hlífðarfatnaði.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×