Innlent

Byggðin sem tapaði mestu vegna hvalveiðibannsins

Kristján Már Unnarsson skrifar
Nærri þrjátíu árum eftir að Alþingi féllst á hvalveiðibann hefur samfélagið á Barðaströnd ekki enn náð sér eftir áfallið. Þegar hrefnuveiðar voru leyfðar á ný var það of seint fyrir Brjánslæk, fjölskyldur voru farnar í þrot og fluttar brott. Þetta er meðal þess sem fjallað er um í þættinum Um land allt á Stöð 2 annaðkvöld, þriðjudagskvöld.

Brjánslækur á Barðaströnd var árunum í kringum 1980 ein helsta hvalveiðistöð landsins en þaðan veiddu menn hrefnu á smábátum og verkuðu.

"Hún var tekin af okkur '85. Heimskan, hún ríður ekki við einteyming," sagði Ragnar Guðmundsson á Brjánslæk, einn af þeim sem stóðu að hrefnuveiðunum á sínum tíma.

Hann vísar til þess þegar Alþingi ákvað að mótmæla ekki banni Alþjóðahvalveiðiráðsins. Árin áður hafði verið uppgangur á Barðaströnd og nærri sextíu börn voru í skóla sveitarinnar á Birkimel.
 
"Þetta fer að hrynja þá, þegar við töpum hvalnum. Þá fækkaði um þriðjung í sveitinni. Yngra fólkið sem var farið að setjast að og vann hérna, það festi sig ekki hérna," sagði Ragnar.
 
Þorpið sem hafði verið að byggjast upp á Krossholtum hætti að vaxa. Húsin tæmdust hvert af öðru og versluninni var lokað. Þeir sem stóðu að hrefnuveiðunum töpuðu miklu.


"Við vorum fimm sem áttum þetta. Þrír af okkur fóru á hausinn þegar allt féll," sagði Ragnar.
 



Fleiri fréttir

Sjá meira


×