Innlent

Einn á vakt vegna manneklu í fangelsi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Fangelsið á Kvíabryggju er ekki öryggisfangelsi og því eru herbergi fanganna ekki rammgerð.
Fangelsið á Kvíabryggju er ekki öryggisfangelsi og því eru herbergi fanganna ekki rammgerð. vísir/pjetur

Fangelsin á Íslandi geta ekki mannað stöður í veikindaforföllum. Þetta varð meðal annars til þess að enginn fangavörður var á Kvíabryggju á tímabili á þriðjudag í síðustu viku.

Aðspurður staðfestir Garðar Svansson, trúnaðarmaður fangavarða á Kvíabryggju, þetta.
Í fangelsinu eru alla jafna einn varðstjóri og fangavörður á dagvakt, auk forstöðumannsins, og einn fangavörður á næturvakt með 22 fanga. Umræddan dag var aftur á móti bara einn maður á vakt ásamt forstöðumanninum.

„Það voru bara tveir á vakt og sá sem var á vaktinni þurfti að fara með mann til læknis. Á meðan var enginn, hvorki varðstjóri né fangavörður, á staðnum, bara forstöðumaðurinn,“ segir Garðar.

Hann segir að það gangi almennt yfir stofnanir Fangelsismálastofnanir að vegna niðurskurðar eigi þær erfitt með að kalla inn aukamannskap í forföllum. Þetta ógni öryggi fangavarða. „Virkilega, því fangelsi landsins eru klárlega undirmönnuð,“ segir hann.

Birgir Guðmundsson, forstöðumaður fangelsisins, segir ekkert meiri manneklu í fangelsinu þessa dagana en venjulega. Það séu ekki margir sem vinni á Kvíabryggju þannig að það sé ekki alltaf hægt að kalla menn inn á aukavaktir. „En þá er það þannig að ég er bara á staðnum í staðinn,“ segir Birgir. Hann kannast við það að hafa verið einn í fangelsinu á þriðjudag í síðustu viku í fáeina klukkutíma. „Það er bara alvanalegt hér. Hér er ekki öryggisfangelsi,“ segir hann.

Birgir telur fangelsið nægilega mannað, nema þá kannski helst á nóttunni. „Þar sem maður er hálfan sólarhringinn einn,“ segir Birgir. Það hafi þó viðgengist lengi.

Margrét Frímannsdóttir er forstöðumaður bæði á Litla Hrauni og á fangelsinu að Sogni. Hún segir starfsmannamál þar í góðu horfi.

„Við getum alltaf mannað allar vaktir hér. Aukavaktir eru alltaf mannaðar,“ segir Margrét í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að Litla Hraun og Sogn sé í raun og veru einn og sami vinnustaðurinn, fangaverðir á Litla Hrauni taki vaktir á Sogni og svo öfugt. Starfsmannahópurinn sé því mjög stór í heildina.

„Ég er með mjög fínt og gott starfsfólk,“ segir Margrét að lokum. Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.