Fangelsin á Íslandi geta ekki mannað stöður í veikindaforföllum. Þetta varð meðal annars til þess að enginn fangavörður var á Kvíabryggju á tímabili á þriðjudag í síðustu viku.
Aðspurður staðfestir Garðar Svansson, trúnaðarmaður fangavarða á Kvíabryggju, þetta.
Í fangelsinu eru alla jafna einn varðstjóri og fangavörður á dagvakt, auk forstöðumannsins, og einn fangavörður á næturvakt með 22 fanga. Umræddan dag var aftur á móti bara einn maður á vakt ásamt forstöðumanninum.
„Það voru bara tveir á vakt og sá sem var á vaktinni þurfti að fara með mann til læknis. Á meðan var enginn, hvorki varðstjóri né fangavörður, á staðnum, bara forstöðumaðurinn,“ segir Garðar.
Hann segir að það gangi almennt yfir stofnanir Fangelsismálastofnanir að vegna niðurskurðar eigi þær erfitt með að kalla inn aukamannskap í forföllum. Þetta ógni öryggi fangavarða. „Virkilega, því fangelsi landsins eru klárlega undirmönnuð,“ segir hann.
Birgir Guðmundsson, forstöðumaður fangelsisins, segir ekkert meiri manneklu í fangelsinu þessa dagana en venjulega. Það séu ekki margir sem vinni á Kvíabryggju þannig að það sé ekki alltaf hægt að kalla menn inn á aukavaktir. „En þá er það þannig að ég er bara á staðnum í staðinn,“ segir Birgir. Hann kannast við það að hafa verið einn í fangelsinu á þriðjudag í síðustu viku í fáeina klukkutíma. „Það er bara alvanalegt hér. Hér er ekki öryggisfangelsi,“ segir hann.
Birgir telur fangelsið nægilega mannað, nema þá kannski helst á nóttunni. „Þar sem maður er hálfan sólarhringinn einn,“ segir Birgir. Það hafi þó viðgengist lengi.
Margrét Frímannsdóttir er forstöðumaður bæði á Litla Hrauni og á fangelsinu að Sogni. Hún segir starfsmannamál þar í góðu horfi.
„Við getum alltaf mannað allar vaktir hér. Aukavaktir eru alltaf mannaðar,“ segir Margrét í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að Litla Hraun og Sogn sé í raun og veru einn og sami vinnustaðurinn, fangaverðir á Litla Hrauni taki vaktir á Sogni og svo öfugt. Starfsmannahópurinn sé því mjög stór í heildina.
„Ég er með mjög fínt og gott starfsfólk,“ segir Margrét að lokum.
Einn á vakt vegna manneklu í fangelsi
