Innlent

Námsgjöld leikskóla lækka í nýrri fjárhagsáætlun

Bjarki Ármannsson skrifar
Fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta borgarstjórnar var samþykkt í kvöld.
Fyrsta fjárhagsáætlun nýs meirihluta borgarstjórnar var samþykkt í kvöld. Vísir/Stefán
Fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar fyrir næsta ár var samþykkt á fundi borgarstjórnar nú í kvöld. Þó nokkrar þeirra breytinga sem gerðar voru á milli umræðna snúa að skóla- og frístundamálum. Námsgjöld leikskóla lækka um rúmlega sex prósent og frístundastyrkur hækkar.

„Framlögð fjárhagsáætlun einkennist af varfærni og ábyrgum rekstri,“ sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri í ræðu sinni á fundinum. „Í henni er að finna þær áherslur sem meirihlutinn kynnti í byrjun sumars. Gjöld á barnafjölskyldur lækka, rík áhersla verður lögð á læsi, verk- og listgreinar í skólum auk uppbyggingaráforma.“

Framlag borgarinnar til hráefniskaupa í leik- og grunnskólum hækkar um 56 milljónir króna frá fyrri áætlun og framlög til sérkennslu í leik- og grunnskólum eru aukin um tæpar 48 milljónir króna. Þá eru tuttugu milljónir króna lagðar í sérstakt átak til að auka þátttöku í frístundastarfi fyrir börn af erlendum uppruna, ungmenni eldri en sextán ára sem ekki eru í námi, fatlaða framhaldsskólanema og börn tekjulágra foreldra sem uppfylla ekki skilyrði um fjárhagsaðstoð.

Að auki var fimm ára áætlun borgarinnar fyrir árin 2015 til 2019 samþykkt en samkvæmt henni er fyrirhugað að Félagsbústaðir Reykjavíkur fjárfesti í fimm hundruð nýjum íbúðum á næstu fimm árum. Gert er ráð fyrir að fjárfestingin nemi allt að 13,5 milljörðum á næstu fimm árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×