Innlent

Kærð fyrir samkeppnislagabrot

Ingvar Haraldsson skrifar
Samkeppniseftirlitið gerði húsleit í húsnæði Samskipa í september á síðasta ári.
Samkeppniseftirlitið gerði húsleit í húsnæði Samskipa í september á síðasta ári. Vísir/Stefán
Samkeppniseftirlitið hefur kært ellefu starfsmenn Samskipa og Eimskipa til sérstaks saksóknara fyrir stórfelld brot á samkeppnislögum. Kastljósið greindi frá þessu í kvöld.

Samkvæmt kærunni hafa fyrirtækin skipt á milli sín viðskiptum við fyrirtæki og heilu landshlutana. Í kærunni er minnst á kvartanir fyrirtækja vegna þess að þau hafi fengið samhljóða tilboð hjá Eimskipum og Samskipum. Einnig eru tiltekin dæmi úr innanhúsgögnum frá fyrirtækjunum þar sem áhersla er lögð á að hækka verð en ekki lækka og láta þar að auki ákveðin fyrirtæki og landsvæði eiga sig.

Meðal hinna kærðu eru Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipa, Ásbjörn Gíslason, fyrrverandi forstjóri Samskipa, og Pálmar Óli Magnússon, núverandi framkvæmdastjóri Samskipa.Fyrirtækin ásamt dótturfyrirtækjum flytja inn um áttatíu til níutíu prósent af neytendavörum á Íslandi auk þess að sinna um sjötíu prósentum af landflutningum á Íslandi.

Samkeppniseftirlitið gerði húsleit hjá Samskipum, Eimskipum og dótturfyrirtækjum þeirra í september árið 2013 og í júní á þessu ári við rannsókn málsins. Fyrirtækin sæta einnig rannsókn samkeppnisyfirvalda í Hollandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×