Innlent

Brutu flísar og rúður fyrir um tíu milljónir

Haraldur Guðmundsson skrifar
Húsið er 4.000 fermetrar að stærð og var í sumar auglýst til sölu fyrir um 300 milljónir króna.
Húsið er 4.000 fermetrar að stærð og var í sumar auglýst til sölu fyrir um 300 milljónir króna. Vísir/Daníel
Kostnaður vegna skemmdarverka sem unnin hafa verið á atvinnuhúsnæði við Tjarnarvelli í Hafnarfirði nemur um tíu milljónum króna. Bæjaryfirvöld hóta dagsektum vegna slæmrar umgengni við húsið sem staðið hefur autt síðan 2008.

„Bærinn sendi forráðamönnum hússins bréf um síðustu áramót þar sem vakin var athygli á slæmri umgengni við húsið og farið var fram á úrbætur. Það hefur ekki verið brugðist við bréfinu og því verða næstu skref fólgin í dagsektum á eiganda hússins,“ segir Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar.

Húsið var byggt árið 2008 og stendur við götuna Tjarnarvelli. Það er í eigu Skjaldborgar kröfuhafafélags 3 ehf. sem samanstendur af kröfuhöfum sem eiga veð í fasteigninni. Á meðal þeirra eru Hömlur, dótturfélag Landsbankans, og Hlutdeild, vinnudeilusjóður Samtaka atvinnulífsins.

Ólafur Ingi Tómasson
„Það hafa borist nokkur kauptilboð á tímabilinu sem hafa ekki gengið eftir og það hefur ekki verið ráðist í umbætur á lóðinni á meðan þau hafa verið í skoðun,“ segir Brynja Hjálmtýsdóttir, stjórnarformaður Skjaldborgar.

Hún segir rúður og klæðningu hússins ítrekað hafa verið brotin og segir kostnað vegna skemmdanna nema um tíu milljónum króna.

„Við hörmum þessi skemmdarverk og okkur finnst með ólíkindum hvernig gengið hefur verið um húsið og annað autt atvinnuhúsnæði í bænum. En það hafa borist ný kauptilboð og það verður tekin afstaða til þeirra á hluthafafundi síðar í vikunni,“ segir Brynja.

Ólafur Ingi segist vona að niðurstaða fáist í málið sem fyrst. Hann segir önnur úrræði einnig í skoðun sem geti komið í veg fyrir slæma umgengni fyrirtækja í bænum.

„Við erum í hreinsunarátaki og ætlum að fara lengra með það en áður með því að nýta okkur þær heimildir sem við höfum til að sækja rusl á kostnað eigenda ef þeir sjá ekki sóma sinn í því að hafa snyrtilegt í kringum sig,“ segir Ólafur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×