Innlent

Jökulsárgljúfur áfram lokuð

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Um 230 manns voru við Dettifoss á laugardaginn.
Um 230 manns voru við Dettifoss á laugardaginn. Fréttablaðið/VIlhelm
Að minnsta kosti 400 ferðamenn þurftu að yfirgefa Jökulsárgljúfur þegar fréttir bárust af því á laugardaginn að gos væri hafið. Hjörleifur Finnsson þjóðgarðsvörður segir að fólk hafi yfirleitt brugðist mjög vel við. „Undantekningarlítið hafði það einhverja vitneskju um eldfjallavirkni og þess vegna þurfti ekki að útskýra mikið fyrir því hvað væri í gangi,“ segir hann. Fréttablaðið hefur rætt við ferðaþjónustuaðila sem eru ósáttir við lokanirnar.

Hjörleifur telur aftur á móti að þetta hafi verið eðlilegar ráðstafanir. „Það eru einstaka ferðaþjónustuaðilar sem sjá til skamms tíma fram á tekjutap en ég held að langtímahagsmunir ferðaþjónustunnar á Íslandi séu að halda Íslandi sem öruggu ferðamannalandi. Þannig að ég held að við eigum langtímahagsmuni sameiginlega með ferðaþjónustunni,“ segir Hjörleifur.

Svavar Pálsson, sýslumaður á Húsavík, segir að þetta svæði verði áfram lokað. „Hlutverk Almannavarna er að tryggja öryggi almennings. Þess vegna grípum við til þeirra ráðstafana sem við teljum nauðsynlegar,“ segir Svavar. Aðgerðir yfirvalda byggist allar á því að tryggja öryggi fólksins miðað við upplýsingar á hverjum tíma.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.