Innlent

Íslenskir ökumenn undir áhrifum: Fleiri teknir dópaðir en ölvaðir

Jón Sigurður Eyjólfsson skrifar
Ölvunarakstur hefur verið eitt mesta áhyggjuefni umferðarlögreglu en nú virðist ekki síður algengt að menn aki undir áhrifum ávana- og fíkniefna.
Ölvunarakstur hefur verið eitt mesta áhyggjuefni umferðarlögreglu en nú virðist ekki síður algengt að menn aki undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Vísir/Getty
 „Jafnan hafa mun fleiri verið teknir vegna ölvunar við akstur heldur en aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna, en bilið hefur minnkað síðustu ár og ef fram heldur sem horfir stefnir í að í árslok verði þessu öfugt farið í fyrsta sinn,“ segir Snorri Örn Árnason, félagsfræðingur hjá upplýsinga- og áætlanadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Guðbrandur Sigurðsson, yfirmaður umferðardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir þetta þó ekki bestu mælistikuna til að meta fjölda þeirra sem aka undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Til þess væri betra að líta til fjölda þeirra umferðaróhappa þar sem ávana- og fíkniefni koma við sögu. Þar er Bakkus reyndar fyrirferðarmeiri enn sem komið er en þeim tilfellum þar sem ávana- og fíkniefni koma við sögu í umferðarslysum fjölgar ört.

Reyndar eru þau meira en helmingi fleiri á fyrri helmingi þessa árs en á sama tíma í fyrra.

Þróunin virðist því blasa við og þau á Samgöngustofu hafa vissulega áhyggjur af henni.

Það er þó ekki vandalaust að blása til átaks enda getur það valdið undrun ef fólk, sem þegar er að brjóta lög í þeim tilfellum þegar um fíkniefni er að ræða, er beðið um að sýna skynsemi og aka ekki. „Fíkniefnaneysla er í sjálfu sér ólöglegt athæfi sem vandi hefur reynst að bregðast við, hvað þá þegar akstur undir áhrifum bætist við,“ segir Þórhildur Elínardóttir, upplýsingafulltrúi á Samgöngustofu.

„Í þeim tilgangi að sporna gegn þessari óheillaþróun vill Samgöngustofa leggja aukna áherslu á samvinnu um þetta málefni, sérstaklega við til að mynda lögreglu og landlækni en einnig safna gögnum og upplýsingum um þær aðferðir sem reyndar hafa verið hjá öðrum þjóðum.“ 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×