Innlent

Dagur vill að borgin reki heilsugæslu

Bjarki Ármannsson skrifar
Dagur segir borgina tilbúna til að taka að sér rekstur heilsugæslu í Reykjavík.
Dagur segir borgina tilbúna til að taka að sér rekstur heilsugæslu í Reykjavík. Vísir/Stefán
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segist eindregið vilja að Reykjavíkurborg taki alfarið yfir rekstur heilsugæslu í borginni og samtvinni hana félagsþjónustu. Hann viðraði þessa skoðun á Facebook í gær, en hann segir mjög marga deila þessari framtíðarsýn hans.

„Bilið á milli heilbrigðismála og félagsmála er oft óljóst,“ segir Dagur. „Eins er það orðið viðurkennt að þegar maður er að ræða málefni fjölskyldna, þá virkar einfaldlega betur heildstæð nálgun þar sem sérfræðingar vinna saman sem teymi en ekki sem afmarkaðar stofnanir sem vísa fólki hvor á aðra.“

Þetta kallar Dagur „Akureyrar-módelið“ með vísun til þess að Akureyrarbær hefur undanfarið rekið heilsugæslu bæjarins samhliða annarri þjónustu. Með sameiningu heilbrigðisstofnana á Norðurlandi mun ríkið yfirtaka reksturinn á heilsugæslu Akureyrar. Í Fréttablaðinu í gær segir Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra að það sé engin ástæða til að ætla að við það dragist þjónustan saman, en af þessu hefur Dagur áhyggjur.

„Ég hef áhyggjur af því að þessi góða samvinna og samþætting sem náðst hefur á Akureyri sé í hættu ef ábyrgðin færist til,“ segir hann. „Ég held að það séu tvímælalaust rök fyrir því að þetta eigi einmitt að vera á einni hendi.“


Tengdar fréttir

Dagur vill "Akureyrar-módelið“ til Reykjavíkur

Borgarstjóri vill að Reykjavíkurborg reki heilsugæsluna í borginni, með sama sniði og verið hefur á Akureyri, en þar hefur hún verið rekin samkvæmt sérstökum þjónustusamningi við ríkið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×