Lífið

Kanar eru ólmir í að gifta sig á Íslandi

Kristjana Arnarsdóttir skrifar
Það er nóg að gera hjá hjónunum Chris og Ann Peters en þau fá að meðaltali fimm fyrirspurnir um brúðkaup á Íslandi á viku hverri.
Það er nóg að gera hjá hjónunum Chris og Ann Peters en þau fá að meðaltali fimm fyrirspurnir um brúðkaup á Íslandi á viku hverri. MYND/Úr einkasafni
„Í hverri viku fáum við að minnsta kosti fimm fyrirspurnir frá pörum sem vilja koma til Íslands og gifta sig,“ segir bandaríski ljósmyndarinn Ann Peters, en Ann og eiginmaður hennar, Chris, reka vefsíðuna Icelandweddingplanner.com. Hjónin giftu sig hér á landi árið 2012 og segir Ann að hugmyndin að vefsíðunni hafi kviknað í kjölfarið.

„Við rákum þegar fyrirtæki sem sneri að brúðkaupsljósmyndun og skipulögðum ferðum en eftir okkar eigið brúðkaup ákváðum við að leggja áhersluna á brúðkaup á Íslandi með amerísku ívafi.“

Hún segir að flest þau pör sem setji sig í samband við fyrirtækið vilji komast í snertingu við hið ótrúlega landslag sem hér er að finna. „Ísland er eini staðurinn í heiminum þar sem hægt er að sjá jökla, eldfjöll, fossa, svarta sanda, hella og torfbæi á einum degi!“

Ann og Chris hafa þegar náð að sinna fjölmörgum brúðkaupum hér á landi það sem af er ári og myndaði Ann brúðhjónin víða um land, þar á meðal á Mýrdalsjökli, í Reynisfjöru, við Jökulsárlón og á Úlfljótsvatni.

Fríða María Harðardóttir förðunarfræðingur segir að hún fái reglulega fyrirspurnir frá erlendum pörum sem vilja aðstoð við að undirbúa brúðkaup hér á landi.

„Ég hef því miður ekki getað sinnt þessum brúðkaupum enda er ég í nægum verkefnum. En fyrirspurnirnar eru það margar að ég er komin með staðlað bréf sem ég sendi til baka. Þetta virðist vera orðið voðalega vinsælt.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.