Innlent

Báturinn Sæfari er afturhvarf til fortíðar

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Sæfari er sannkallaður smábátur enda ekki nema um tvö tonn. Hann er hér við hlið Rósu í Brún sem er 6,8 tonn.
Sæfari er sannkallaður smábátur enda ekki nema um tvö tonn. Hann er hér við hlið Rósu í Brún sem er 6,8 tonn. Mynd/Aðalsteinn
„Maður fer nú ekki langt út á honum, ekki lengra en svona tvær sjómílur,“ segir Haukur Hauksson, skipstjóri á Sæfara, einum minnsta smábátnum sem gerður er út hér við land. Báturinn var gerður út frá Kópaskeri á grásleppu í vor.

Sæfari er rétt um tvö tonn, í honum er eins strokks SABB-vél og gengur hann um 4,5 mílur á klukkustund. Ekki er stýrishús á Sæfara og því mætti vel ímynda sér að kalt sé um borð.

„Það var einmunatíð í maí og maður var í flotgalla. Ég fann aldrei fyrir kulda,“ segir Haukur. Hann segir að það sé gott að róa á bátnum, hann fari vel í sjó. Hann sé stöðugur.

„Netin eru tekin inn að framan og þau halda bátnum,“ útskýrir Haukur. „Þetta er afturhvarf til fortíðar. Það er eiginlega alveg vonlaust að ná í svona báta. Ég held að það séu þrír til á landinu öllu, þar af eru tveir á Kópaskeri,“ segir Aðalsteinn Tryggvason, útgerðarmaður og eigandi Sæfara.

Auk Sæfara gerir Aðalsteinn út Rósu í Brún ÞH. Sá bátur er 5,8 tonn og hefur síðastliðin fjögur ár verið á handfærum, línu og grásleppu.

Það var vefurinn aflafrettir.is sem sagði frétt af Sæfara og hefur hún vakið mikla athygli.

Aðalsteinn segist hafa keypt bátinn til að hagnast.

„Það er úthlutað 32 dögum á hvern bát í strandveiðunum, svo ég fjölgaði dögunum um helming með því að kaupa Sæfara,“ segir Aðalsteinn og kímir við.

Sæfari aflaði vel á grásleppuvertíðinni, fékk 8,9 tonn í 14 róðrum.

„Hann er fengsæll. Þetta er gamall grásleppubátur, það hefur alla tíð aflast vel á hann,“ segir Haukur. Hann segir útgerðina hagstæða. Báturinn eyði engu. Á grásleppuvertíðinni hafi hann brennt um 40 lítrum af olíu sem sé álíka og stór bátur geri á klukkustund.

„Ég er gríðarlega ánægður með þennan bát og sáttur við vertíðina. Ég hlakka til að róa á honum aftur,“ segir Haukur.

Nú er Sæfari kominn á þurrt en menn eru að velta því fyrir sér að fara með hann inn á Akureyri og veiða silung á stöng á Pollinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×