Innlent

Vinnusálfræðingar kanna samskiptavanda starfsmanna og forstöðumanns á Hlíð

Sveinn Arnarsson skrifar
Allt logar í illindum á einni deild og starfsfólk er hrætt um að ástandið muni bitna á vistmönnum.
Allt logar í illindum á einni deild og starfsfólk er hrætt um að ástandið muni bitna á vistmönnum. mynd/heida.is
Mikil óánægja ríkir á meðal starfsmanna öldrunarheimilisins Hlíðar á Akureyri. Er svo komið að á einni deild hafa starfsmenn horfið á braut vegna samskiptavandamála við forstöðumann deildarinnar og vinnusálfræðingar hjá sálfræðiþjónustunni Líf og Sál í Reykjavík hafa verið fengnir til að fara ofan í saumana á vinnuskilyrðum á deildinni.

Í byrjun febrúar héldu starfsmenn umræddrar deildar fund þar sem þeir fóru yfir ástandið. Fundurinn var að sögn erfiður og kom fram mikil óánægja með starfandi forstöðumann. Umræðuefni fundarins var viðvarandi vandamál á deildinni vegna starfsanda og vinnuskilyrða á deildinni. Var ástandið á þeim tíma orðið það slæmt að ekki varð unað við það lengur.

Starfsfólki deildarinnar líður illa í kringum forstöðumann, þeir eru teknir á teppið fyrir litlar sem engar sakir, fjölda starfsmanna hefur verið ýtt burt af deildinni og flutt sig annað vegna samskiptavanda við forstöðumann.  Starfsfólk segir sér líða illa yfir því að geta ekki kvartað til yfirmanns síns því það óttast það að missa vinnuna ef það fellur í ónáð. Átta starfsmenn hafa á síðustu misserum hætt störfum á deildinni aðeins vegna umrædds forstöðumanns.

Vinnusálfræðingateymi frá sálfræðiþjónustunni Líf og Sál vinnur nú að því að skoða vinnuskilyrðin á deildinni. Hafa sálfræðingar á þeirra vegum tekið viðtal við starfsmenn deildarinnar til að reyna að greina stöðuna. Starfsmenn sem Fréttablaðið hefur talað við telja að þessi umrædda deild búi við það ástand að þar logi allt stafnanna á milli og engin leið sé að vera glaður og sáttur í vinnunni.

Nú er svo komið að vegna starfsmannaveltu á staðnum eru starfsmenn uggandi yfir því að þetta geti haft áhrif á klínískt og gott starf sem reynt er að vinna á deildinni. Óttast þau að ástandið geti farið að hafa áhrif á íbúa deildarinnar.

Halla Margrét Tryggvadóttir, starfsmannastjóri Akureyrarbæjar, vildi ekki tjá sig við blaðamann þegar eftir því var leitað. Halldór Sigurður Guðmundsson, framkvæmdastjóri Öldrunarheimilisins, vildi heldur ekki ræða málið á þessu stigi málsins en sagði að umræddur forstöðumaður hefði fullt traust til starfans.




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×