Innlent

Íbúum býðst að rækta matjurtir

Freyr Bjarnason skrifar
Sáningardagur verður á laugardag milli 11 og 16 þar sem íbúar eru hvattir til að mæta.
Sáningardagur verður á laugardag milli 11 og 16 þar sem íbúar eru hvattir til að mæta.
Í sumar verður tímabundinn hverfisgarður settur upp í Laugardal við hliðina á Fjölskyldugarðinum.

Hann heitir Laugargarður og þar býðst íbúum að rækta grænmeti. Garðurinn er einnig hugsaður sem almenningsgarður þar sem íbúar geta komið og notið útivistar í hverfinu sínu.

Sáningardagur verður á laugardaginn og eru íbúar hvattir til að mæta og hjálpa til við að setja mold í beð og sá en fræ verða á staðnum fyrir þá sem mæta. Einnig er fólki velkomið að koma með fræ, forsáðar plöntur og eigin ílát.

Það sem aðgreinir garðinn frá öðrum almenningsmatjurtagörðum í borginni er áherslan sem lögð er á sameiginlega ræktun í bland við þá áherslu sem lögð er á félagslega eflingu innan hverfisins.

Garðurinn verður um 500 fermetrar að stærð og þar af verður 200 fermetra ræktunarsvæði. Afrakstur sumarsins verður seldur á bændamarkaði og munu tekjur af honum fara í áframhaldandi starfsemi ásamt ýmsum öðrum uppákomum. MA-nemar og BA-nemar úr Listaháskóla Íslands og Landbúnaðarháskólanum hafa umsjón með garðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×