Innlent

Ómöguleiki hjá úrskurðarnefnd að fara að lögum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Meira vatnsmagn í Lagarfljóti eftir Kárahnjúkavirkjun en ráð var fyrir gert veldur tjóni og setur spurningamerki við starfsleyfi virkjunarinnar segir Fljótsdalshérað.
Meira vatnsmagn í Lagarfljóti eftir Kárahnjúkavirkjun en ráð var fyrir gert veldur tjóni og setur spurningamerki við starfsleyfi virkjunarinnar segir Fljótsdalshérað. Fréttablaðið/GVA
„Bæjarráð telur algerlega óásættanlegt að opinber úrskurðarnefnd sjái sér ekki fært að fara að fyrirmælum laga í starfsemi sinni,“ segir bæjarráð Fljótsdalshérað sem sættir sig ekki við málshraða hjá úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Fréttablaðið sagði frá því í lok apríl að bæjarráðið ákvað að kæra Orkustofnun fyrir að neita að taka upp aftur mál Fljótsdalshéraðs um skilmála virkjunarleyfa Kárahnjúka- og Lagarfossvirkjunar vegna meira vatnsmagns í Lagarfljóti en ráð hafi verið gert fyrir og tjóns af því.

Fleiri mál og færra starfsfólk

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála segir að jafnvel þótt nefndin hafi lögum samkvæmt þrjá til sex mánuði til að kveða upp úrskurð telji hún sér ekki fært að ljúka málinu innan árs frá móttöku kærunnar.

Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar auðlinda- og umhverfismála, segir skýringuna á málshraðanum þá að málum hafi fjölgað umfram áætlanir og mannskapur hafi sömuleiðis verið minni en gert hafi verið ráð fyrir þegar nefndin var stofnuð 1. janúar 2012.

Nanna Magnadóttir, forstöðumaður úrskurðarnefndar auðlinda- og umhverfismála.
Fólk býst eðlilega við réttum málshraða

„Það eru samlegðaráhrif af þessum ástæðum sem valda því að málsmeðferðartíminn er kominn langt út fyrir lögmætan afgreiðslutíma,“ segir Nanna sem aðspurð játar því að margir málsaðilar séu ósáttir við þessa stöðu. „Fólk býst eðlilega við að fá afgreiðslu sinna mála innan þeirra fresta sem lögin mæla fyrir um. En þetta er bara staðan eins og hún er og það er bara ákveðinn ómöguleiki fyrir okkur að vinna hraðar án þess að eitthvað annað komi til.“

Nefndin hefur óskað eftir auknu fjármagni. „Við erum að biðja um fjárveitingu til að ráða þrjá starfsmenn tímabundið í eitt ár til að vinna bug á málahalanum. Það eru hátt í tvö hundruð mál sem bíða afgreiðslu,“ segir forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar.

„Kærendur hafa að jafnaði ríka hagsmuni af því að fá úrskurði í sínum málum og krefst bæjarráð þess að yfirvöld sjái til þess að lögum verði fylgt í þessu máli sem og öðrum,“ undirstrikar bæjarráð Fljótsdalshéraðs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×