Innlent

Rákust á ævintýramann á sjó

Karl Ólafur Hallbjörnsson skrifar
Duff er heimsþekktur fyrir kajakferðir sínar.
Duff er heimsþekktur fyrir kajakferðir sínar. Vísir/Aðsent
Áhöfn Birtings NK 124 var á kolmunnaveiðum um 120 sjómílur frá landi þegar hún rakst fyrir tilviljun á ævintýramanninn og kajakróðrarmanninn heimsfræga, Chris Duff, úti á rúmsjó.

Duff hefur áður farið hringinn kringum Ísland á kajak sínum, og sló heimsmet þegar hann fór hringinn kringum Bretlandseyjar. Frá árinu 1983 hefur hann ferðast meira en 14.000 sjómílur á kajak.

Að þessu sinni er ævintýramaðurinn á leið frá Færeyja til Íslands, en það er rúmlega 240 sjómílna ferð. Duff er einn á ferð og notast bæði við segl og árar, en einnig notar hann flugdreka til að fleyta sér áfram.

Duff er ekki sá eini á leiðinni frá Færeyjum til Íslands, en áhöfn úthafsróðrarbátarins Auðar er einnig á leið til landsins.

Áhöfn Birtings hafði aðeins ætlað sér að veifa róðrarmanninum og halda svo leið sína sem fyrr, en þá datt kokkinum það snjallræði í hug að færa ferðalanginum dulítið snarl í gogginn.

Áhöfnin snaraði einni alíslenskri fiskibollumáltíð á disk og kom til hans í dásamlegu veðrinu. Duff var himinlifandi yfir glaðningnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×