Innlent

Vara við hugsanlegri mengun á tjaldstæði

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hugmynd sem lögð var fyrir bæjarstjórn Fjallabyggðar.
Hugmynd sem lögð var fyrir bæjarstjórn Fjallabyggðar.
Áform eru nú uppi um að endurskipuleggja Leirutanga á Siglufirði. Tjaldstæði á að vera á norðurhluta tangans næst miðbænum en friðland fugla á sunnanverðri uppfyllingunni.

Um er að ræða áfanga í samkomulagi Fjallabyggðar og Rauðku ehf., félags Róberts Guðfinnssonar, sem er umsvifamikill atvinnurekandi og lóðaeigandi á svæðinu.

Á fundi með forsvarsmönnum Fjallabyggðar í janúar sagði Róbert við blasa að í óefni stefndi vegna mikillar fjölgunar ferðamanna sem tjaldstæði og svæði fyrir húsbíla önnuðu engan veginn. Ákveðið var að fá Edwin Roald golfvallahönnuð og Ármann Viðar Sigurðsson, byggingafulltrúa Fjallabyggðar, til að leggja fram hugmyndir um nýtingu tangans og innri hafnarinnar annars vegar og um nýtingu miðbæjarins hins vegar.

Vernda kríu og aðra fugla

Tvímenningarnir segja hugmyndir varðandi miðbæinn enn of óljósar til þess að koma með markvissar tillögur um hann. Varðandi tangann leituðu þeir ráða hjá fuglaáhugamönnum í bænum og hjá Fuglaverndarfélagi Íslands.

„Lagt er til að tjaldsvæði verði á norðurhluta tangans, einkum til að draga úr gönguvegalengd til og frá miðbæ Siglufjarðar, og að friðland fugla verði á sunnanverðri uppfyllingunni, þar sem fuglalíf er einna mest í dag. Kría og æðarfugl eru meðal mest áberandi tegunda og er hér gengið út frá því að finna þurfi heppilega og varanlega lausn sem tryggt getur að tjaldsvæðisgestir og krían geti átt samleið á tanganum án þess að úr verði of mikið ónæði,“ segir í umfjöllun Edwins og Ármanns.

Róbert Guðfinnsson, athafnamaður á Siglufirði.Fréttablaðið/Arnþór
Stæði fyrir 120 húsbíla

Á tanganum er gert er ráð fyrir um 120 húsbílastæðum. „Afstöðu húsbíla innbyrðis er einnig ætlað að opna sem besta sjónlínu til Hólshyrnunnar,“ segja tvímenningarnir. Þá er gert ráð fyrir útivistarstígum, tjörn og síki. „Hugmyndir hafa komið fram frá Rauðku ehf. um að hluti vatnaleiðar eða síkis geti nýst sem skautasvell á vetrum.“

Sérfræðingarnir vara við að uppfyllingin hafi gegnum árin verið vettvangur margvíslegrar urðunar, meðal annars á heimilissorpi, ýmsum vélum og jarðvegi.

Óljós hætta á mengun

„Án þess að nokkur áþreifanleg gögn liggi fyrir um slíkt, þá telja undirritaðir ekki hægt að útiloka mengunarhættu vegna þessara fyrri landnota. Eftirgrennslan undirritaðra hefur leitt í ljós að víða þar sem heimilissorp og bílhræ hafa verið urðuð geti orðið vart við mengun af völdum metangass og PCB,“ segir í niðurstöðum Ármanns og Edwins.

Bæjarstjórnin hefur samþykkt óbreytta staðsetningu tjaldsvæðis við torgið á Siglufirði næstu tvö ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×