Innlent

Ráðherra getur hugsað sér þjóðaröryggisráð

Brjánn Jónasson skrifar
Þótt flestir tengi umræðu um þjóðaröryggi við hermenn og hertól er hugtakið skilgreint mun víðar í skýrslu nefndar sem falið var að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
Þótt flestir tengi umræðu um þjóðaröryggi við hermenn og hertól er hugtakið skilgreint mun víðar í skýrslu nefndar sem falið var að móta þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Fréttablaðið/Stefán
Unnið verður að nýrri þjóðaröryggisstefnu Íslands á næstu mánuðum og tillaga að stefnu lögð fyrir haustþing Alþingis, segir Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra.

Rætt var um tillögur að mótun þjóðaröryggisstefnu á fundi á vegum Nexus í Háskóla Íslands í gær og var hann haldinn í samstarfi við Alþjóðamálastofnun HÍ og Varðberg. Þar var fjallað um skýrslu þingmannanefndar sem fékk það verkefni að móta tillögur um þjóðaröryggisstefnu. Ýtarlega var fjallað um skýrsluna í Fréttablaðinu eftir að hún kom út.

Gunnar Bragi Sveinsson
Gunnar Bragi segir að vel megi hugsa sér að stofna íslenskt þjóðaröryggisráð. Hlutverk slíks ráðs yrði að bregðast við hvers konar ógnum sem að landinu steðji, til dæmis hernaðarlegum, vegna náttúruhamfara eða mengunarslyss.

„Það er brýnt að það fari fram almenn umræða um niðurstöðu nefndarinnar fyrir utan veggi Alþingis, við þurfum að hleypa sem flestum að þessu máli,“ sagði Gunnar Bragi á fundinum í gær.

Hann sagði mótun þjóðaröryggisstefnu hluta af því ferli sem átt hafi sér stað á síðustu árum, þegar ábyrgðin á öryggi landsins hafi í auknum mæli færst yfir á herðar Íslendinga sjálfra.

Valur Ingimundarson
Hugtakið þjóðaröryggi takmarkast ekki við hernað og hertól, heldur nær einnig til netöryggis, náttúruhamfara, mengunarslysa og annarra ógna, eins og fram kemur í skýrslu þingmannanefndarinnar.

Þau drög að þjóðaröryggisstefnu, sem þverpólitísk þingmannanefnd skilaði, líða aðeins fyrir það að orðalagið í þeim er almennt, sagði Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, á fundinum í gær. Valur ritstýrði meðal annars áhættumatsskýrslu fyrir Ísland sem kom út árið 2009.

„Þegar farið er ofan í saumana á tillögum nefndarinnar er ljóst að hún byggist í megindráttum á þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt undanfarin ár,“ sagði Valur. „Það er leitast við að ná sem breiðastri samstöðu, og hið almenna orðalag sem einkennir textann er dæmi um það viðhorf.“

Valur sagði þó ljóst að enn væri ágreiningur um nokkur grundvallarmálefni. Dæmi um það er afstaðan til hlutverks Atlantshafsbandalagsins, friðlýsingar Íslands fyrir kjarnorkuvopnum og samstarfs við Evrópusambandið. 

Valur sagði fulla þörf á því að stofna íslenskt þjóðaröryggisráð. Það hafi til dæmis komið í ljós í efnahagshruninu, þegar viðbrögð stjórnvalda hafi ekki verið nægilega vel samræmd.

Valgerður Bjarnadóttir
Valgerður Bjarnadóttir, formaður nefndarinnar, sagði það vissulega tímamót þegar takist að leggja drög að þjóðaröryggisstefnu með stuðningi allra stjórnmálaflokka. Mikill ágreiningur hafi verið um þennan málaflokk í íslenskum stjórnmálum í gegnum tíðina.

Hún sagði það mikla áskorun fyrir þá embættismenn sem nú fái það hlutverk að móta tillögu að þjóðaröryggisstefnu. Þeir verði að sameina ólík sjónarmið, og gæta þess að verkefni endi á réttum stöðum í stjórnsýslunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×